Handbolti: Þórsarar drógust gegn Selfyssingum í bikarnum

Dregið hefur verið um leiki í 16 liða úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta. Þórsarar fengu heimaleik og mæta Olísdeildarliði Selfyssinga.

Þór sat yfir í fyrstu umferð bikarkeppninnar og Selfyssingar sömuleiðis. Fjórir leikir fóru fram í fyrstu umferðinni, en leikir í 16 liða úrslitum fara fram 17. og 18. nóvember. Leikurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og samkvæmt því sem sett hefur verið inn á vef HSÍ mun hann fara fram laugardaginn 18. nóvember, en tímasetning er ekki komin inn.

Þórsarar eru sem kunnugt er jafnir Fjölni á toppi Grill 66 deildarinnar, en Selfyssingar eru á botni Olísdeildarinnar með einn sigur úr fyrstu átta leikjunum. Það verður því áhugavert að sjá þessi lið kljást í bikarkeppninni.