Herslumuninn vantaði á Hlíðarenda

Kvennalið Þórs í körfubolta var hársbreidd frá því að ná framlengingu gegn Íslandsmeisturum Vals í fjórðu umferð Subway-deildarinnar í kvöld, en niðurstaðan varð tveggja stiga tap eftir hetjulega baráttu og frábæran lokasprett.

Þórsliðið mætti af fullum krafti og sjálfstrausti í Origo-höllina og lét sér fátt um finnast þótt þær ættu í höggi við Íslandsmeistarana.

Eftir ágæta byrjun hjá okkar stelpum náði Valur tíu stiga forskoti, en tvo góð áhlaup minnkuðu þann mun niður í sex stig fyrir lok fyrsta leikhluta og svo niður í tvö stig snemma í öðrum. Þórsarar höfðu í fullu tré við Íslandsmeistarana, jafnt í öðrum leikhluta og Valur því áfram með sex stiga forystu þegar gengið var til búningsklefa eftir fyrri hálfleikinn. 

Þórsliðið lenti í brasi í þriðja leikhluta, gekk illa að skora, boltinn vildi frekar skoppa á hringnum en að detta ofan í á meðan Valskonur héldu sínu striki. Munurinn varð mestur 19 stig, en minnkaði í 14 stig fyrir fjórða leikhlutann. Þór náði góðu áhlaupi í fjórða leikhlutanum, minnkaði muninn í sex stig þegar hann var rétt rúmlega hálfnaður, þrjú stig þegar tæp mínúta var eftir og Hrefna Ottósdóttir jafnaði í 73-73 með þristi þegar sjö sekúndur voru eftir. Valur tók leikhlé og svaraði með körfu, Daníel Andri tók leikhlé og stelpurnar gerðu tilraun til að jafna leikinn á þeim 0,9 sekúndum sem eftir voru, en tókst því miður ekki.

Þegar upp er staðið hefði sigurinn getað dottið hvorum megin sem var og áttu okkar konur síst minna skilið út úr leiknum en Íslandsmeistararnir. Með frábærri baráttu og vilja tókst þeim að vinna upp 19 stiga mun og vantaði aðeins herslumuninn upp á að ná að vinna leikinn.

Valur - Þór (24-18) (19-19) 43-37 (19-11) (13-25) 75-73

Hrefna Ottósdóttir og Lore Devos skoruðu mest Þórsara, 18 stig hvor, Hrefna með sín stig öll úr þriggja stiga skotum. Maddie Sutton hélt uppteknum hætti í fráköstunum, tók 16 slík í kvöld. Eva Wium Elíasdóttir öflug í leikstjórnandastöðunni og gaf 12 stoðsendingar.

Þórsliðið var með örlítið betri skotnýtingu og örlítið fleiri fráköst en Valur. Valur með 39% nýtingu, Þór 40%. Valur með 43 fráköst, Þór með 45. Tapaðir boltar voru hins vegar sjö fleiri hjá Þórsliðinu, 20 á móti 13.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór
Hrefna Ottósdóttir 18/6, Lore Devos 18/9/4, Maddie Sutton 16/16/6, Eva Wium Elíasdóttir 12/2/12, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 5/2, Jovanka Ljubetic 3/2/1.

Valur
Lindsay Pulliam 23/7/2, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 16/1/3, Karina Konstatinova 11/2/7, Hildur Kjartansdóttir 10/11/2, Ásta Grímsdóttir 10/10/1, Eydís Þórisdóttir 3/1, Sara Boama 2/5/1, Elísabert Thelma Róbertsdóttir 0/2/0, Margrét Ósk Einarsdóttir 0/1/0.

Ítarleg tölfræði leiksins (kki.is)

Að loknum fjórum umferðum eru Þórsarar með tvo sigra og tvö töp. Keflvíkingar eru með fullt hús á toppnum, síðan koma Njarðvík, Grindavík og Haukar með þrjá sigra. Þór, Valur og Stjarnan eru öll með tvo sigra.

Næsti leikur Þórsliðsins verður áhugaverður en þá koma Njarðvíkingar norður. Liðin mætast þriðjudaginn 17. Október kl. 18:15. Njarðvík tapaði naumlega fyrir Keflavík í fyrstu umferðinni, en hefur síðan unnið Breiðablik, Hauka og Grindavík.

Næst:

  • Deild: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Þór - Njarðvík
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: 17. október
  • Tími: 18:15