ÍSÍ tekur skref í átt að inntöku pílukasts

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti nýverið tvær nýjar íþróttagreinar, eins og það er orðað í frétt á vef ÍSÍ, og er pílukast önnur þessara íþróttagreina. 

Í frétt ÍSÍ segir að með staðfestingu sambandsins verði hægt að afgreiða þær umsóknir sem liggja þegar fyrir um inngöngu sérfélaga og þau megi þá einnig skrá iðkendur í þessar íþróttagreinar, líkt og iðkendur annarra íþrótta sem viðurkenndar eru af ÍSÍ. Þessi samþykkt virðist þó aðeins skref í átt að endanlegri inntöku pílukastsins þar sem meðal annars er gert að skilyrði að stofnað sé sérsamband um íþróttina.

Um þetta segir í frétt ÍSÍ: 

Píla hefur lengi verið stunduð hjá íþróttafélögum en þá sem félagsstarfsemi en ekki íþróttastarfsemi þar sem íþróttin var ekki viðurkennd sem íþrótt innan ÍSÍ fyrr en núna. Undanfarið hefur iðkun pílu farið hraðvaxandi á landvísu og ýmis sérfélög um pílu sótt um aðild að íþróttahéruðum innan ÍSÍ.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti pílu sem íþrótt en þó með fyrirvara um að fundin verði lausn á innleiðingu þess skipulags sem nú þegar er um píluna hér á landi, inn í íþróttahreyfinguna. Starfandi á Íslandi er Íslenska pílukastsambandið, sem er aðili að Alþjóðapílukastsambandinu en lög ÍSÍ gera ekki ráð fyrir því að hægt sé að taka landssamtök inn í sambandið heldur verða sérsambönd til við ákveðna þróun og vöxt íþróttarinnar á landsvísu innan ÍSÍ.

Þegar íþróttin hefur skilað upplýsingum um iðkendur í skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ um einhvern tíma og þannig staðfest að stöðugleiki sé í ástundun íþróttarinnar innan vébanda ÍSÍ, verður væntanlega sótt um heimild til Íþróttaþings ÍSÍ um stofnun sérsambands, að því gefnu að íþróttin uppfylli öll skilyrði þar að lútandi.

ÍSÍ og Íslenska pílukastsambandið munu næstu misserin vinna saman að því að innleiða íþróttina í íþróttahreyfinguna og samræma lög, reglur og stefnur Íslenska pílukastsambandsins við kröfur íþróttahreyfingarinnar þar að lútandi.