Íþróttafólk Akureyrar - kjöri lýst 24. janúar

Frá athöfninni í janúar 2022. Aldís Kara Bergsdóttir, íþróttakona Akureyrar 2021, og Ásthildur Sturl…
Frá athöfninni í janúar 2022. Aldís Kara Bergsdóttir, íþróttakona Akureyrar 2021, og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Ótrúlega stutt síðan við vorum öll með grímu. Þær verða hvergi sjáanlegar í Hofi 24. janúar. Mynd Þóris Tryggvasonar af vef ÍBA.

Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær bjóða bæjarbúum til athafnar í Hofi þriðjudaginn 24. janúar nk. kl. 17.30 þar sem lýst verður kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar.

Íþróttamaður Akureyrar var fyrst valinn 1979 og verður þetta því í 44. sinn sem íþróttamaður - og síðan íþróttakarl og íþróttakona - eru valin og verðlaunuð af ÍBA. Dagskrá viðburðarins verður nokkuð hefðbundin, en athöfnin er opin öllum. 

Dagskrá

  • Hátíðin sett af formanni ÍBA
  • Ávarp formanns fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Kynning á Íslandsmeisturum 2022
  • Kynning á heiðursviðurkenningum fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Styrkveiting úr Afrekssjóði Akureyrar til tíu afreksefna
  • Kynning á tilnefningum tíu efstu konum og tíu efstu körlum í kjörinu
  • Kjöri íþróttkarls og íþróttakonu Akureyrar 2022 lýst

 

Finna má lista yfir tíu efstu konur og tíu efstu karla í kjörinu í frétt á vef ÍBA. Þar á meðal eru Bjarni Guðjón Brynjólfsson, íþróttakarl Þórs, og handboltakonurnar Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir úr KA/Þór.