Hillir undir að íþróttahús Þórs rísi

Á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar síðastliðinn fimmtudag var lagt fram minnisblað varðandi fyrirhugaða uppbyggingu íþróttahúss og félagsaðstöðu á félagssvæði Þórs í kjölfar þess að fræðslu- og lýðheilsuráð hafði fagnað góðri undirbúningsvinnu um fyrirhugaða uppbyggingu og því vísað málinu áfram til bæjarráðs.

Bæjarráð hefur falið sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna að undirbúningi að breytingu á deiliskipulagi svæðisins og í framhaldi af því mun bærinn vinna að samkomulagi um uppbygginguna í samræmi við minnisblaðið.

Um stór tíðindi er að ræða og sannkölluð gleðitíðindi fyrir okkur Þórsara en áætlað er að leggja drög að samkomulaginu fyrir bæjarráð í lok febrúar.

Því hillir loks undir að íþróttahús muni rísa á Þórssvæðinu áður en langt um líður og af því tilefni mun félagið boða til félagsfundar á komandi vikum þar sem farið verður yfir áformin.