Jafnt í Grafarvoginum

Jóhann Geir Sævarsson skoraði sjö mörk í jafntefli gegn Fjölni. Myndin var tekin í leik í Höllinni á…
Jóhann Geir Sævarsson skoraði sjö mörk í jafntefli gegn Fjölni. Myndin var tekin í leik í Höllinni á Akureyri. Mynd: Þórir Tryggva.

Þórsarar sóttu eitt stig í Grafarvoginn þegar þeir mættu Fjölni í Grill 66 deildinni í handbolta í dag. Lokatölur 24-24. Næsti leikur er 20. janúar.

Leikurinn var jafn frá upphafi til enda og munurinn aldrei meiri en eitt eða tvö mörk í aðra hvora áttina. Þórsarar voru einu marki yfir eftir fyrri hálfleikinn, 10-11. Liðin skiptust svo á forystunni í seinni hálfleiknum. Á einum tímapunkti voru Fjölnismenn yfir, 21-19, en Þórsarar jöfnuðu og komust tvisvar marki yfir á lokamínútunum, 22-23 og 23-24, en heimamenn jöfnuðu í bæði skiptin. Bæði lið fengu tækifæri í stöðunni 24-24, bæði lið tóku leikhlé, en hvorugu tókst að nýta sér það. Niðurstaðan 24-24.

Mörk og varin skot

Þór
Mörk:
Jóhann Geir Sævarsson 7, Kostadin Petrov 6, Josip Vekic 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Aron Hólm Kristjánsson 2, Jonn Rói Tórfinsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 1 og Viðar Ernir Reimarsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 5, Arnar Þór Fylkisson 2.

Fjölnir
Mörk:
Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 6, Alex Máni Oddnýjarson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Óðinn Freyr Heiðmarsson 3, Elvar Þór Ólafsson 1, Goði Ingvar Sveinsson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Andri Hansen 8.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Tölfræði og gangur leiksins á hbstatz.is.

Þórsarar eru þar með komnir í leikjafrí langt fram í janúar, en næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Kórdrengjum föstudaginn 20. janúar kl. 19:30. Núna þegar jólafrí er komið í deildinni eru Þórsarar í 5. sæti með 10 stig, jafn mörg og Fjölnir, en hafa leikið einum leik meira.