KA/Þór mætir Haukum í dag

Leikur KA/Þórs og Hauka í Olísdeildinni í handbolta, sem frestað var á dögunum vegna veðurs, fer fram í dag kl. 17:30.

Þessi lið eru jöfn að stigum í 5. og 6. sæti deildarinnar, bæði með tíu stig, en KA/Þór hefur leikið einum leik færra en Haukar. Leikurinn snýst því fyrst og fremst um að komast upp fyrir hitt liðið og fjarlægjast neðsta sætið, en von beggja liða um að komast á endanum upp í 4. sætið og í úrslitakeppnina er fjarlæg enda níu stiga munur á Fram og þessum tveimur liðum. Spiluð er þreföld umferð í deildinni þannig að hvert lið spilar 21 leik. KA/Þór á því sjö leiki eftir - 14 stig í pottinum - og auðvitað getur allt gerst í þessu eins og ávallt í íþróttum. Vonin er auðvitað ekki úti þótt vissulega sé langt upp í 4. sætið í stigum talið.