KA/Þór mætir Stjörnunni í úrslitakeppni Olísdeildarinnar

KA/Þór tapaði lokaleik sínum í Olísdeildinni á sama tíma og Haukar unnu HK. Haukar tóku 5. sætið, KA/Þór endar í 6. sæti og mætir Stjörnunni í úrslitakeppninni.

KA/Þór mætti Val á útivelli og mátti þola 14 marka tap. Eftir jafnar upphafsmínútur þar sem KA/Þór hafði forystu í nokkrar mínútur náði Valur þriggja marka forystu eftir um tíu mínútna leik og juku hana svo áfram út fyrri hálfleikinn, munurinn 11 mörk í leikhléi, 18-7. KA/Þór náði að minnka muninn niður í átta mörk snemma í seinni hálfleik, en komust ekki nær en það. Valur bættu aftur í forystuna og lokatölurnar 33-19. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir, markvörður Vals, reyndist okkar stelpum erfið og varði rúmlega annað hvert skot.

Á sama tíma og KA/Þór átti í höggi við Val náðu Haukar að fara upp í 5. sætið með sigri á HK. KA/Þór endar í 6. sæti deildarinnar með 12 stig og mætir Stjörnunni í úrslitakeppninni. Tvö efstu liðin bíða þar til í undanúrslitum, en Stjarnan sem endaði í 3. sæti mætir KA/Þór og Fram sem endaði í 4. sæti mætir Haukum.

Lokastaða deildarinnar (handbolti.is).

Úrslitakeppni Olísdeildarinnar hefst mánudaginn 17. apríl, að því er fram kemur á handbolti.is. Það þýðir að KA/Þór á útileik í Garðabænum 17. Apríl, heimaleik fimmtudaginn 20. apríl og útileik sunnudaginn 23. apríl ef annað hvort liðið verður ekki þegar búið að vinna tvo leiki.

Tölurnar

KA/Þór
Mörk: Rut Jónsdóttir 9, Ida Hoberg 8, Hildur Lilja Jónsdóttir 6, Lydía gunnþórsdóttir 4, Anna Mary Jónsdóttir 1, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Natalía Soares 1. Júlía Björnsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 5 (17,9%), Sif Hallgrímsdóttir 4 (28,6%)
Refsingar: 2 mínútur

Valur
Mörk: Auður Ester Gestsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdótir 5, Sara Dögg Hjaltadóttir 4, Mariam Eradze 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Karlotta Óskarsdóttir 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnildur Anna Þorleifsdóttir 15 (51,7%).
Refsingar: 4 mínútur.