Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Kátt í Höllinni: Fjölmennasta og fjörugasta Pollamót Þórs í körfuknattleik frá upphafi
Pollamót Þórs í körfuknattleik fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri 3. og 4. október. Keppendur á mótinu hafa aldrei verið fleiri en jafn mörg lið mættu til leiks í ár og í fyrra (31). Mótið heppnaðist virkilega vel og lokahófið var án nokkurs vafa það fjörugasta til þessa.
Þegar upp var staðið var það lið Dagsbrúnar sem varð hlutskarpast í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur). Only Hsuman unnu Polladeildina (25 til 39 ára karla) og Kefboys stóðu uppi sem sigurvegarar í Lávarðadeildinni (karlar 40 ára og eldri). Flottustu búningana á mótinu áttu Slow Motion Squad og bestu tilþrif mótsins áttu Búbblurnar og Trodd’essu.
Það setti skemmtilegan svip á mótið í ár að sjálfur Damon Johnson, einn besti erlendi körfuknattleiksmaður sem spilað hefur á Íslandi, mætti gagngert til landsins til þess að spila með Kefboys á Pollamóti Þórs í körfuknattleik. Einnig var mjög skemmtilegt að heilt lið (Only Hsuman) var búið til í kringum hinn geðþekka bandarísk-taívanska leikmann, Wesley Hsu, sem spilaði áður með Þór Akureyri og seinna Ármanni.
Lokahóf Pollamótsins í ár verður lengi í manna minnum. Upphitun fyrir kvöldið var í formi Happy Hour áður en opnað var inn í veisludalinn. Í upphafi fyrsta leikhluta lagði Njarðvíkingurinn Örvar Kristjánsson línurnar og stýrði svo herlegheitunum af stakri fagmennsku út í gegn. Seinna í leikhlutanum kom Þórður Vilhelm Steindórsson (Doddi) sterkur inn úr eldhúsinu og reiddi fram dýrindismat og Siggi Orri skemmtikraftur reif fólk út á dansgólfið. Í öðrum leikhluta var komið að þætti Rúnars Eff Rúnarssonar sem sló heldur betur í gegn hjá mótsgestum með kassagítar, hljóðnema og magnara að vopni. Geggjaður! Í þriðja leikhluta náði ætlaði svo þakið bókstaflega að rifna af Höllinni þegar tvíeykið JóiPé X Króli trylltu lýðinn með vel völdum slögurum. DJ Lilja tók við góðu búi í fjórða leikhluta, bætti um betur og sigldi öruggum sigri í höfn með dúndrandi danstónlist. Eftir lokahófið fóru margir lokahófsgestir sjálfviljugir í framlengingu og héldu skemmtuninni áfram niðri í bæ.
Skipuleggjendur Pollamóts Þórs í körfuknattleik þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá alla aftur að ári og enn fleiri til. Næsta Pollamót Þórs í körfuknattleik verður haldið 2. og 3. október 2026.
Mótsnefnd þakkar innilega þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við mótið og sér í lagi þeim sem lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til þess að láta allt ganga upp. Það koma margar hendur að því að láta svona stórt mót ganga upp. Án ykkar er ekkert mót. Kærar þakkir.
Mótsnefnd þakkar einnig styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag (Skógarböðin, Coca Cola, Acro, Kjarnafæði Norðlenska og Akureyrarbæ).
Guðjón Andri Gylfason, formaður KKD Þórs, og Stór-Þórsarinn Páll Jóhannesson, tóku fullt af myndum á mótinu eins og sjá má með því að smella meðfylgjandi hlekki.
Sjáumst á næsta ári á Pollamóti Þórs í körfuknattleik! Áfram körfubolti!
Körfuboltakveðja, mótsnefnd (Doddi, Gummi, Kári, Raggi og Stefán Þór).
Myndir frá mótinu. Guðjón Andri
https://bokhladan.client-gallery.com/gallery/pollamot-thors-karfa-25
Myndur Palli Jóh https://www.thorsport.is/is/moya/gallery/index/index/_/pollamot-thors-i-korfubolta-2025?page=1