Knattspyrna: Fjórar endurnýja samninga við Þór/KA

Þær endurnýjuðu samninga sína við Þór/KA um helgina: Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Una Móeiður Hlynsdótti…
Þær endurnýjuðu samninga sína við Þór/KA um helgina: Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Steingerður Snorradóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.

Um helgina undirrituðu fjórar úr leikmannahópi félagsins nýja samninga við stjórn Þórs/KA.

Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Steingerður Snorradóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir eru allar fæddar 2005 og komu upp í meistaraflokk úr yngri flokkum félaganna á Akureyri. Þær stigu allar sín fyrstu skref með meistaraflokki með Hömrunum 2020 og eiga allar að baki tugi leikja í meistaraflokki. Þær hafa nú allar undirritað nýja samninga til næstu tveggja ára.


Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA.

Iðunn Rán Gunnarsdóttir (2005) er varnarmaður og hefur aðallega spilað í miðvarðarstöðunni. Hún á að baki 49 meistaraflokksleiki og þrjú mörk, þar af 41 leik með Þór/KA og átta með Hömrunum. Leikirnir í A-deild eru 27 og að auki hefur hún spilað 13 leiki með yngri landsliðum Íslands, U16, U17 og U19. Fyrstu leikir Iðunnar í meistaraflokki voru með Hömrunum 2020 og fyrsti leikur með Þór/KA í Lengjubikar sama ár.

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (2005) spilar á miðjunni, en hefur einnig leyst bakvarðastöður og jafnvel miðvarðastöðuna þegar þurft hefur. Hún á að baki 74 meistaraflokksleiki og fjögur mörk, þar af 65 leiki með Þór/KA og níu með Hömrunum. Hún hefur spilað 16 landsleiki með yngri landsliðum. Fyrsta leik í meistaraflokki spilaði hún með Hömrunum vorið 2020 og fyrsta leik með Þór/KA í Lengjubikar sama ár.

Steingerður Snorradóttir (2005) spilar sem vinstri bakvörður. Hún á að baki 39 meistaraflokksleiki, þar af 30 með Þór/KA og níu með Hömrunum í 2. deild 2020 þar sem hún skoarði tvö mörk. Leikirnir í A-deild eru 17 og að auki hefur hún spilað níu landsleiki með yngri landsliðum Íslands, U19, U17 og U16. Steingerður spilaði í fyrsta skipti í meistaraflokki vorið 2020 með Hömrunum, en fyrstu leikirnir með Þór/KA voru í Lengjubikar 2021.

Una Móeiður Hlynsdóttir (2005) er framherji/kantmaður og hefur leikið 60 meistaraflokksleiki. Þar af eru 25 með Þór/KA, 13 í A-deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Hún spilaði 16 leiki og skoraði fimm mörk á lánssamningi hjá Völsungi sumarið 2022, en hafði áður spilað með Hömrunum 2020 og 2021. Fyrsti leikurinn í meistaraflokki var með Hömrunum vorið 2020 og fyrsti leikurinn með Þór/KA í Lengjubikar vorið 2022.