Körfubolti: Aftur og nýbúnar!

Stelpunum í Subway-deildar liði Þórs gefst ekki mikill tími til endurheimtar eftir leiki þessa dagana og fá litlu ráðið um leikjadagskrána.

Í kvöld kl. 18:15, 49 tímum og fimmtán mínútum frá því að síðasti leikur hófst, er komið að fyrsta leik í öðrum hluta Subway-deildarinnar. Okkar konur fara í Garðabæinn og mæta liði Stjörnunnar.

Viðureign þessara liða á Akureyri var söguleg því hún var í fyrstu umferð mótsins og þar með fyrsti leikur kvennaliðs Þórs í efstu deild í körfubolta í 45 ár. Þór vann þann leik með níu stiga mun, 67-58. Hrefna Ottósdóttir skoraði flest stig Þórs í leiknum, 17, en Lore Devos skoraði 16.

Eftir tvö töp í upphafi móts hefur Stjarnan unnið sex leiki af sjö og er í 3. sæti deildarinnar með jafnmarga sigra og Grindavík eftir fyrstu níu umferðirnar. Þór vann eftirminnilegan sigur á toppliði Keflavíkur síðdegis á sunnudag og er með fimm sigra í níu leikjum, eins og Íslandsmeistarar Vals.

Þegar liðin mætast í kvöld verður það sannarlega ekki í fyrsta skipti á áriniu 2023. Þessi lið mættust þrisvar í deildarkeppni 1. deildar 2022-23, reyndar fjórum sinnum á því tímabili því þau drógust saman í bikarkeppninni einnig. Tveir af þessum leikjum fóru fram fyrir áramótin, en tveir á árinu 2023. Síðan mættust þau fimm sinnum í úrslitarimmu 1. deildar í vor og svo í fyrstu umferð Subway-deildarinnar í haust. Leikurinn í kvöld verður því níunda viðureign þessara liða á árinu 2023 og sú ellefta á rúmlega ári.