Körfubolti: Áhugaverður vetur fram undan í 1. deildinni

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari karlaliðs Þórs í körfubolta. Liðið hefur leik í 1. deildinni með he…
Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari karlaliðs Þórs í körfubolta. Liðið hefur leik í 1. deildinni með heimsókn í Stykkishólm föstudginn 6. október. Mynd: Páll Jóhannesson.

Karlalið Þórs í körfubolta hefur leik í 1. deildinni á morgun, föstudaginn 6. október, með útileik gegn Snæfelli í Stykkishólmi. Fyrsti heimaleikurinn verður fimmtudaginn 12. okbóber þegar nýliðar KR í 1. deildinni koma norður og mæta okkar mönnum í Höllinni. Stórveldið í Vesturbænum lenti nefnilega í lægð og féll úr Subway-deildinni í vor.

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: Snæfell - Þór
  • Staður: Stykkishólmur
  • Dagur: Föstudagur 6. október
  • Tími: 19:15


Frá æfingu í Íþróttahöllinni. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þrátt fyrir erfitt tímabil 2022-23 er engan bilbug að finna á Þórsliðinu núna þegar keppni í 1. deildinni er að hefjast. Fjölgað var í deildinni sem þýðir að Þórsarar héldu sæti sínu og mæta til leiks í haust með öflugra lið en í fyrra og reynslunni ríkari. Óskar Þór Þorsteinsson er áfram þjálfari meistaraflokks, auk þess að deila starfi yfirþjálfara yngri flokka með Daníel Andra Halldórssyni, þjálfara meistaraflokks kvenna. Félagið hefur einnig fengið til liðs við sig öflugan þjálfara Ivica Petric, en hann verður aðstoðarþjálfari Óskars Þórs auk þess að þjálfa yngri flokka.

Undirbúningstímabilið gekk vel

Óskar Þór segir undirbúningstímabilið hafa gengið vel, kjarni heimamanna hafi æft í allt sumar og liðið fullmannað í ágúst. Strákarnir eru heilt yfir í góðu standi og klárir í tímabilið þótt auðvitað séu alltaf eitthvað um smávægileg meiðsli,“ segir Óskar Þór. Liðið spilaði tvo æfingaleiki til upphitunar fyrir tímabilið, þann fyrri gegn liði Hattar sem spilar í Subway-deildinni og þann seinni gegn ÍA. Óskar segir niðurstöður beggja leikja hafa verið jákvæðar. Leikurinn gegn Hetti tapaðist með átta stigum eftir að Þór hafði leitt mestallan fyrri hálfleikinn og verið með níu stiga forskot í leikhléi, sem er sterkt miðað við sama tíma í fyrra þegar liðin spiluðu æfingaleik þar sem niðurstaðan var 30 stiga stap


Skjáskot úr upptöku af æfingaleiknum gegn ÍA.

Okkar menn sýndu einnig frábæra takta í leiknum gegn ÍA, en sanngjarnt er að segja að Þórsarar hafi einfaldlega verið betra liðið í leiknum. Varnarleikurinn okkar hélt þeirra bestu mönnum algjörlega í skefjum og uppskárum við auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum í staðinn,“ segir Óskar Þór um leikinn gegn ÍA. Þór vann með 20 stiga mun, 80-60. Til gamans má geta þess að í spá fyrirliða, þjálfara og formanna var Þór spáð 11. sæti, en ÍA 7. sæti.

Öflugir leikmenn hafa bæst við hópinn

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá síðastliðnu tímabili, eins og sjá má á listanum neðar í þessari umfjöllun. Óskar Þór kveðst mjög ánægður með viðbæturnar við hópinn, sem nú sé dýpri en áður og nýir leikmenn komnir inn í hópinn í allar stöður sem muni spila mikið.

Líklega á einn af nýju leikmönnunum í Þórsliðinu eftir að vekja meiri athygli en aðrir, en þjálfarinn er ánægður með þá alla. Erlendu leikmennirnir hafa sýnt okkur á undirbúningstímabilinu að þeir hafi alla burði til að vera með betri leikmönnum deildarinnar og þá sérstaklega Harrison Butler. Hann er risa biti, hann spilaði fyrir sterkt Divison 1 lið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og var valinn í úrvalslið Wac-deildarinnar í fyrra. Harry er rosalega mikill íþróttamaður og getur skapað sér og öðrum góð skot hvar sem er á vellinum. Hann er líka með frábærann smekk. Hann hafði samband við okkur að fyrra bragði og vildi spila fyrir okkur, en hann var að giftast stelpu frá Akureyri í sumar,“ segir Óskar Þór.

Um aðra nýja leikmenn segir Óskar Þór:

Jason Gigliotti er stór og sterkur miðherji sem mun styrkja okkur helling í baráttunni inn í teig, sérstaklega varnarlega. Jason er einstaklega lunkinn frákastari og munu mörg lið verða í vandræðum með halda honum frá sóknarfráköstunum.

Michael Walcott bætist einnig í hópinn en hann er 34ra ára áhugamaður sem var að flytja norður. Ég mæli sérstaklega með því að fylgjast með honum í upphitun en hann er með rosalegann stökkkraft þrátt fyrir aldur og mun bjóða upp á troðslu sýningar fyrir leik. Mike kemur með reynslu inn í hópinn og erfitt væri að finna mann sem hefur meiri ástríðu en hann þegar kemur að körfubolta. Mike hefur búið á Íslandi í þrjú ár og fellur því undir þriggja ára regluna, en hún felur í sér að leikmenn sem hafa búið á Íslandi samfleytt í þrjú ár eða meira geta spilað án takmarkana.

Við bættum líka við okkur tveimur íslenskum strákum, þeim Reyni Róbertssyni og Sigurjóni Guðgeirssyni. Róbert er 19 ára bakvörður sem kemur til okkar frá Íslandsmeistaraliði Tindastóls. Hann mun spila stórt hlutverk hjá okkur í vetur en hann mun koma upp með boltann fyrir okkur ásamt Smára. Sigurjón er 23ja ára miðherji sem kemur frá Hetti, en hann var að glíma við erfið meiðsli í fyrra og gat því lítið spilað fyrir Hött. Sigurjón mun koma með orku og baráttu af bekknum en stórir menn vaxa ekki á trjánum og því fögnum því alltaf að fá fleiri tveggja metra menn til okkar.

Ég er þó sérstaklega spenntur að sjá hvernig íslenski kjarninn okkar kemur inn í tímabilið en þeir hafa verið duglegir að æfa í sumar. Við tókum þá ákvörðun í fyrra að spila okkar strákum meira og allt bendir til þess að við munum uppskera fyrir það í ár. Baldur, Kolbeinn og Smári munu allir vera áfram í lykilhlutverki í ár og með sterkari atvinnumenn á vellinum munu fleiri auðveld tækifæri skapast fyrir þá. Ég býst við því að þeir muni skila svipaðri tölfræði og í fyrra en í færri skotum. Andri, Aggi, Viktor og Róbert koma allir aftur en það verður líka skemmtilegt að sjá hvernig þessir strákar ná að nýta tækifærin þegar þau bjóðast. Einnig eru tveir ungir heimamenn að koma inn í hópinn í fyrsta skipti, Fannar og Hákon en þeir eru báðir efnilegir leikmenn sem verða í baráttunni um mínútur,“ segir Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari karlaliðs Þórs í körfubolta.

Leikmannahópurinn

Komnir:
Reynir Bjarkan Róbertsson frá Tindastóli
Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar frá Hetti
Harrison Butler frá Bandaríkjunum
Jason Gigliotti frá Ítalíu
Micheal Walcott frá Álftanesi
Ivica Petric (aðstoðarþjálfari)

Farnir:
Toni Cutuk
Zak Harris
Bergur Ingi Óskarsson
Páll Nóel Hjálmarsson í Breiðablik

Leikmannalisti

Númer

Nafn

Hæð Árgerð Leikstaða
28    Andri Már Jóhannesson  200 2002   framherji/miðherji (4)
5   Arngrímur Alfreðsson  190 2005   framherji (2-3)
25   Baldur Örn Jóhannesson  195 2001   miðherji/framherji (4-5)
3   Fannar Ingi Kristínarson  189 2006   framherji (2)
33   Jason Gigliotti  203 1999   miðherji (4-5) 
51   Harrison Butler  198 1999   framherji (2-3)
1   Hákon Hilmir Arnarsson   188 2006   bakvörður/framherji (1-2)
10   Kolbeinn Fannar Gíslason  190 2001   framherji (3)
17   Michael Walcott  183 1989   framherji (2-3)
6   Reynir Bjarkan Róbertsson  188 2004   bakvörður (1)
4   Róbert Orri Heiðmarsson  193 2001   miðherji (5)
2   Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar  202 2000   miðherji (5)
15   Smári Jónsson  179 2001   bakvörður (1)
11   Viktor Már Árnason  190 2002   framherji (2-3)

 

Fyrstu leikir Þórs

  • Fös. 6. okt. kl. 19:15: Snæfell - Þór (Stykkishólmur)
  • Fim. 12. okt. kl. 19:15: Þór - KR (Höllin)
  • Fös. 20. okt. kl. 19:15: Fjölnir - Þór (Dalhús)
  • Fös. 27. okt. kl. 19:15: Þór - Selfoss (Höllin)
  • Fös. 3. nóv. kl. 19:15: ÍR - Þór (Skógarsel)
  • Fös. 10. nóv. kl. 19:15: Þór - Hrunamenn (Höllin)
  • Fös. 17. nóv. Kl. 19:15: ÍA - Þór (Jaðarsbakkar)
  • Fös. 24. Nóv. kl. 19:15: Þór - Þróttur V. (Höllin) 

Listi yfir alla leiki Þórs í deildinni í vetur (kki.is)

Smellið á myndina til að fara á Instagram-reikning körfuknattleiksdeildar Þórs.