Körfubolti: Fjögurra stiga tap á Skaganum

Harrison Butler skorar þriggja stiga körfu þegar rúm hálf mínúta var eftir. Skjáskot úr útsendingu Í…
Harrison Butler skorar þriggja stiga körfu þegar rúm hálf mínúta var eftir. Skjáskot úr útsendingu ÍA TV.

Þórsarar náðu ekki sínum fyrsta útisigri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Fjögurra stiga tap á Skaganum varð niðurstaða dagsins.

Þórsurum gekk illa að hitta af vítalínunni í fyrri hálfleiknum, en leikurinn að öðru leyti nokkuð jafn í fyrsta fjórðungi. Skagamenn sigu aðeins fram úr í öðrum leikhluta, náðu 11 stiga forskoti, en góður kafli á lokamínútum fyrri hálfleiks skilaði því að munurinn var fimm stig í leikhléi.

Um miðjan þriðja leikhluta höfðu Þórsarar minnkað muninn í tvö stig, 48-46, og leikurinn áfram hnífjafn út þriðja leikhluta. Þórsarar jöfnuðu leikinn í fyrstu sókn fjórða leikhlutans, 62-62, komust síðan yfir, en þá hafði ekki verið jafnt síðan um miðbik fyrsta fjórðungs.

Skagamenn náðu með herkjum að halda nokkurra stiga forskoti fram á lokamínútuna. Þegar rúm hálf mínúta var eftir tóku Þórsarar leikhlé og strax að því loknu kom þriggja stiga karfa frá Harrison Butler, staðan þá 83-81, en því miður gengu aðgerðir Þórsara eftir það ekki upp og sigurinn var heimamanna.

ÍA - Þór (20-14) (22-23) 42-37 (20-23) (23-21) 85-81

Harrison Butler, Jason Gigliotti og Reynir Róbertsson skoruðu allir yfir 20 stig fyrir þór og Harri og Jason báðir með yfir tíu fráköst. Þórsarar tóku 13 fleiri fráköst en Skagamenn, en það dugði ekki til sigurs. Skagamenn nýttu þriggja stiga skotin og vítaskotin betur en Þórsarar.

Stig/fráköst/stoðsendingar

ÍA: Þórður Freyr Jónsson 24/5/1, Aamondae Coleman 23/15/3, Srdjan Stojanovic 16/0/7, Lucien Christofis 8/1/1, Aron Dagsson 5/5/3, Styrmir Jónasson 3/2/3, Jónas Steinarsson 2/3, Chimaobim Oduocha 2/1/1, Gerardas Slapikas 2/0/1.

Þór: Harrison Butler 25/10/1, Jason Gigliotti 20/14, Reynir Róbertsson 20/2/3, Baldur Örn Jóhannesson 6/12/4, Smári Jónsson 4/3/3, Hákon Hilmir Arnarsson 2/4/1, Michael Walcott 2/2/2, Páll Nóel Hjálmarsson 2 stig.

Helstu tölur (smellið á myndina til að skoða ítarlegri tölfræði).

Næsti leikur Þórsara er einnig útileikur, en þá fara þeir alla leið til Sandgerðis til að mæta Þrótti úr Vogunum.

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: Þróttur V. - Þór
  • Staður: Sandgerði
  • Dagur: föstudagur 24. nóvember
  • Tími: 19:15