Körfubolti: Hetjuleg barátta dugði ekki til sigurs

Lore Devos átti frábæran leik gegn Stjörnunni, skoraði 34 stig og tók 19 fráköst. Myndin er úr leik …
Lore Devos átti frábæran leik gegn Stjörnunni, skoraði 34 stig og tók 19 fráköst. Myndin er úr leik liðanna á Akureyri í lok september. Mynd: Páll Jóhannesson.

Stelpurnar okkar í körfuboltanum láta mótlæti ekki á sig fá og þrátt fyrir meiðslavandræði eftir síðasta leik áttu þær flottan leik á útivelli gegn Stjörnunni í kvöld. Aðeins vantaði örlítið upp á í lok leiks og niðurstaðan sex stiga sigur Stjörnunnar í hnífjöfnum leik.

Tölfræðin segir okkur að frammistaða Þórsliðsins hafi verið góð, skotnýtingin fín, frákastabaráttan jöfn þó Maddie Sutton hafi ekkert spilað, en eins og stundum áður tapaði liðið boltanum óþarflega oft, 19 tapaðir boltar á móti tíu hjá Stjörnunni.

Stjarnan hafði frumkvæðið í fyrsta leikhluta, en Þórsstelpurnar hleyptu þeim aldrei of langt í burtu. Munurinn mestur níu stig, en ekki nema tvö stig þegar leikhlutanum lauk, 19-17. Annar leikhluti var svipaður nema hvað í lok hans náði Þórsliðið forystunni og leiddi með einu stigi eftir fyrri hálfleikinn, 37-38.

Lore Devos kom sterk inn í þennan leik, skoraði 15 stig í fyrri hálfleiknum og tók 16 fráköst. Virkilega góð byrjun hjá henni eftir að hafa gengið illa að hitta ofan í körfuna lengst af í sigurleiknum gegn Keflavík á sunnudaginn. Þórsliðið þurfti líka virkilega á henni að halda í dag því hvorki Maddie Sutton né Hulda Ósk Bergsteinsdóttir gátu spilað í dagn vegna meiðslanna sem þær hlutu í lok fyrri hálfleiks gegn Keflvíkingum. Maddie fór þó með í leikinn og var á leikskýrslu enda má segja að framlag hennar, hvatning og kraftur utan vallar sé ekki síður mikilvægt en það sem hún gerir inni á vellinum.

Leikurinn var áfram hnífjafn og spennandi í þriðja leikhluta og liðin skiptust á forystunni og Stjarnan með fjögurra stiga forystu fyrir síðasta fjórðunginn. Áfram skiptust liðin á forystunni, leikurinn hnífjafn, 75-75, þegar fimm mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar urðu æsispennandi, eins og raunar leikurinn allur. Stjarnan hafði tveggja stiga forystu og jók hana í fjögur stig með tveimur vel nýttum vítaskotum þegar 22 sekúndur voru eftir og öðrum tveimur skömmu síðar. Það dugði þeim til að kreista fram sigurinn og munurinn á endanum sex stig, 94-88.

Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði á vef KKÍ.

Frammistaða Þórsliðsins var mögnuð þrátt fyrir tapið. Það mæddi auðvitað mikið á Lore Devos í leiknum á meðan Maddie gat ekkert spilað. Lore spilaði 40 mínútur, skoraði 34 stig og tók 19 fráköst. Flest fráköstin komu raunar í fyrri hálfleiknum. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 19 stig og Heiða Hlín Björnsdóttir 14.

Þórsliðið sýnir enn og aftur að það er engin tilviljun hvar liðið er statt og hvaða mótherjar hafa þurft að lúta í lægra haldi það sem af er tímabili.

Stjarnan - Þór (19-17) (18-21) 37-38 (29-24) (28-26) 94-88

Stig/fráköst/stoðsendingar

Stjarnan: Kolbrún Ármannsdóttir 24/6/5, Katarzyna Trzeciak 19/6/1, Ísold Sævarsdóttir 18/9/6, Denia Davis-Stewart 17/17/3, Bo Guttormsdóttir-Frost 11/3/1, Fanney  Freysdóttir 3/2/2, Elísabet Ólafsdóttir 2 stig, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir 0/3, Unnur Jónsdóttir 0/3, Bára Björk Óladóttir 0/0/1.

Þór: Lore Devos 34/19/6, Eva Wium Elíasdóttir 19/2/4, Heiða Hlín Björnsdóttir 14/6/3, Hrefna Ottósdóttir 9/5/1, Jovanka Ljubetic 5/5/5, Karen Lind Helgadóttir 4, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3/1.

Nú tekur auðvitað við óvænt endurheimt fyrir næsta leik þegar Fjölnir mætir í Höllina á Akureyri.

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Þór - Fjölnir
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Laugardagur 2. desember
  • Tími: 17:00