Körfubolti: Komnar áfram í bikarkeppninni

Kvennalið Þórs í körfubolta tryggði sér sæti í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins með átta stiga sigri á 1. deildar liði Aþenu, 84-76, í gær.

Eftir bras í byrjun og átta stiga forskot gestanna á fyrstu þremur mínútunum, 2-10, tóku okkar stelpur loks við sér og leiddu eftir fyrsta leikhlutann, 23-20. Þórsliðið lenti aftur í brasi í byrjun annars leikhluta, fyrstu sex stigin voru gestanna, en þá hrökk vélin aftur í gang. Þór jafnaði í 31-31 og seig svo örugglega fram úr út fyrri hálfleikinn. Forskotið orðið 15 stig þegar fyrri hálfleiknum lauk.

Seinni hálfleikurinn var ekkert sérstakur hjá okkar konum, ef frá eru taldar fyrstu mínútur þriðja leikhluta þegar þær juku muninn í 23 stig um miðjan leikhlutann, 62-39. En þá byrjaði brasið aftur með villuvandræðum, töpuðum boltum og misheppnuðum skotum og Aþena fór að saxa á forskotið, munurinn varð minnstur fimm stig, en með vilja og góðum stuðningi áhorfenda tókst Þórsliðinu að halda í forskotið og vinna að lokum með átta stiga mun. 

Alls ekki fallegur sigur, en sigur engu að síður og liðið komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar.

Þór - Aþena (23-20) (27-15) 50-35 (16-14) (18-27) 84-76

Maddie Sutton og Lore Devos voru eins og jafnan áður mest áberandi í Þórsliðinu með 24 og 22 stig og báðar með fjölda frákasta. Jordan Danberry var prímusmótorinn í liði gestanna, skoraði 48 af 76 stigum liðsins og stal 11 boltum af okkar konum. 

Helstu tölur, smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Maddie Sutton 24/17/2, Lore Devos 22/13/4, Eva Wium Elíasdóttir 15/1/6, Jovanka Ljubetic 12/3/0h, Hrefna Ottósdóttir 11/3/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 0/2/2, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 0/1/0.

Aþena: Jordan Danberry 48/10/4, Barbara Zieniewska 11/10/4, Dzana Cmac 9/0/0, Ása Wolfram 4/6/0, Dariana Homenska 2/5/0, Gréta Mjörg Melsted 2/0/0, Mária Dalmay 0/1/1. 

Ásamt Þór eru Njarðvík, Stjarnan, Keflavík, Hamar/Þór og Grindavík komin í átta liða úrslit. Athygli vekur að tveir leikir sem voru á dagskrá 16 liða úrslitanna í gær voru gefnir. Ungmennalið Keflavíkur átti að mæta liði Keflavíkur, en gaf leikinn. ÍR átti að mæta Grindavík, en ÍR-ingar gáfu leikinn. Tveir síðustu leikir 16 liða úrslitanna fara fram í dag þegar bikarmeistarar Hauka mæta Ármanni og Valur mætir Breiðabliki. Valur er einmitt næsti mótherji Þórsliðsins í Subway-deildinni.

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Þór - Valur
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Þriðjudagur 12. desember
  • Tími: 18:15