Körfubolti: „Langaði alltaf að vera sjálf á þessu sviði“

Eva Wium Elíasdóttir sækir að Danielle Rodriguez, sem er ein af bestu leikmönnum deildarinnar, í lei…
Eva Wium Elíasdóttir sækir að Danielle Rodriguez, sem er ein af bestu leikmönnum deildarinnar, í leik Þórs og Grindavíkur í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrr í vetur. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Við höldum áfram að hita upp fyrir undanúrslitin í VÍS-bikarkeppni kvenna í körfubolta. Þór mætir Grindavík miðvikudagskvöldið 20. mars í Laugardalshöllinni. Leikurinn hefst kl. 20 og við ætlum að fylla stúkuna af rauðklæddu stuðningsfólki. 

Eva Wium Elíasdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli með Þórsliðinu, bæði í Subway-deildinni í vetur sem og undanfarna vetur í 1. deild. Hún hefur átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands og var í fyrrasumar í fyrsta skipti valin í hóp með A-landsliðinu fyrir æfingaleiki við Svía. Hún er ein af þeim sem spilar hvað mest í Þórsliðinu, er með að meðaltali um 30 mínútur í leik í vetur. Það mun því mæða mikið á Evu, bæði í sókn og vörn, eins og reyndar öllu Þórsliðinu því að sjálfsögðu vilja bæði lið vinna og fara áfram í úrslitaleikinn. Grindvíkingar eru væntanlega ekki að fara að gefa neitt eftir og það er heldur ekki í eðli Þórsarans að gefa eftir, gefast upp eða hætta þótt verkefnið sé stórt.


Eva er eðli málsins samkvæmt mikið með boltann, sem leikstjórnandi liðsins, og oft í mikilli baráttu við andstæðingana. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Líður mjög vel yfir leiknum

„Það er geggjuð tilfinning að fara í Laugardalshöllina og keppa þar. Ég man þegar ég var yngri og var að horfa á önnur lið spila þar þá langaði mig alltaf að vera sjálf á þessu sviði að spila. Þannig að í dag er ég ótrúlega þakklát fyrir hvað við erum góðar í körfubolta að geta keppt þarna!“ segir Eva þegar hún er spurð út í hvernig henni líður með að fara í Laugardalshöllina. 

Nú styttist óðum í þennan sögulega leik fyrir Þórsliðið sem hefur ekki verið á þessu sviði í Meistaraflokki síðan á áttunda áratug liðinnar aldar. Þór varð nefnilega Íslandsmeistari 1969, 1971 og 1976, og bikarmeistari 1975, eins og rifjað var upp með gömlu íþróttamyndinni á Akureyri.net á dögunum. Þær gerðu ekki atlögu að því að verja bikarmeistaratitilinn árið eftir því af fjárhagsástæðum hafði liðið valið að spila í bikarkeppninni 1975 og Íslandsmótinu 1976, sem þær unnu. Nú eru okkar konur komnar nær þessum stað en nokkru sinni síðan 1975 og mæta Grindvíkingum í undanúrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar annað kvöld.

Þetta var örlítill útúrdúr, snúum okkur aftur að „svölustu sjöunni“ eins og hún var kölluð í kynningarefni í haust. Eva er klár í leikinn, Þórsstelpurnar eru klárar í baráttuna og hún hefur góða tilfinningu fyrir leiknum. „Mér persónulega líður mjög vel fyrir leiknum. Undirbúningur gengur vel og verður maður spenntari með hverjum degi. Ég veit ef við mætum tilbúnar í leikinn, sem við gerum, þá verður þetta mjög jafn og skemmtilegur körfuboltaleikur en síðan munum við taka þetta í lokin. Eitt við okkur stelpurnar er það að við gefumst aldrei upp og berjumst eins og ljón þangað til að dómarinn flautar leikslok.“

Hvernig getur verið of mikil stemning?

Þórsstelpurnar hafa farið langt á stemningunni undanfarin ár og njóta þess að spila körfubolta, láta heyra vel í sér og finna vel fyrir sér í leikjunum. Orkustigið er hátt og stemningin í stúkunni spilar oftast með. Af einhverjum undarlegum ástæðum voru þær jafnvel gagnrýndar af sérfræðingum í upphafi tímabilsins fyrir of mikla stemningu, eða eitthvað í þá áttina. Hvernig er það hægt?


Íþróttahöllin gleypir áhorfendur, sem virðast oft ekki margir ef myndir eru klipptar til. Hins vegar er ekki allt fengið með fjöldanum, það eru gæðin sem skipta máli og stuðningsfólkið á leikjum Þórsliðsins á sinn þátt í velgengni liðsins. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Stemningin smitast á milli, í báðar áttir, frá stelpunum yfir í Þórsfjölskylduna í stúkunni og sömuleiðis í hina áttina. Eva treystir á stuðningsfólkið. „Það sem mig langar að sjá frá Þórsjölskyldunni er það sem við sáum allt síðasta tímabil og síðan það sem er liðið af þessu tímabili en það eru læti, gleði og rosaleg orka! Ég elska að spila fyrir fram þessu æðislegu stuðningsmenn og er ég á því að þetta séu bestu stuðningsmennirnir á Íslandi. Við megum ekki gleyma að þetta fólk hvatti okkur upp í Subway og ætlar núna að hvetja okkur til sigurs í FJÖGURRA LIÐA úrslitum!!“

Eva er líka með skilaboð til fólksins: „Öll jákvæða orkan og lætin frá ykkur spilar alltaf risastóran part í okkar leik og mér líður oft eins og við séum sex á móti fimm þegar þið eruð í stúkunni!“ 

Látum það vera lokaorðin frá Evu Wium Elíasdóttur og drífum okkur suður að hvetja stelpurnar okkar.

Miðasala og rútuferð í Stubbi

Það er auðvitað ástæða til að hvetja Þórsara heima og að heiman til að fjölmenna í Laugardalshöllina á miðvikudagskvöldið kl. 20, mæta í rauðu og hvítu og styðja stelpurnar til sigurs.

Miðasala stendur yfir í Stubbi og þar er einnig hægt að kaupa miða í rútuferð fram og til baka.


Varnarmenn þurfa oft að hafa mikið fyrir því að stöðva Evu og tekst ekki næstum alltaf. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.