Körfubolti: Miðasala á úrslitaleikinn hafin

Miðasala á úrslitaleik Þórs og Keflavíkur í VÍS-bikarkeppni kvenna er hafin. Úrslitaleikurinn verður að sjálfsögðu í Laugardalshöllinni laugardaginn 23. mars og hefst kl. 19.

Miðasala fer öll fram í Stubbi og er fólk minnt á að kaupa Þórsmiða þegar kemur að valinu þar. Einnig er boðið upp á barnamiða. Þegar komið er inn í Stubb taka athugulir aðdáendur væntanlega eftir því að miðar Keflavíkur eru ódýrari, en það er vegna þess að Keflavík er með lið í báðum leikjunum. Mikilvægt að velja rétt, velja Þórsmiða

Það verður að sjálfsögðu rútuferð stuðningsmanna suður á laugardaginn og gert ráð fyrir að leggja af stað frá Hamri kl. 10 að morgni, mæta tímanlega og ná góðum hitting á góðum stað fyrir leik, en það er í vinnslu. Upplýsingar um það síðar.

Einnig viljum við minna á sölu á stuðningsmannabolum og rennur afraksturinn til styrktar kvennaliði Þórs. 

Stelpurnar eiga allan stuðning skilið.

Vakin er athygli á að öryggisgæsla verður ströng og sýnileg ölvun ógildir miðann. Leitað verður á áhorfendum við innganginn og flöskur, ílát eða annað sem getur valdið skaða á leikstað gert upptækt. Einnig minnum við á að það er bannað að reykja og veipa inni í Laugardalshöll, en það fellur undir óviðeigandi hegðun. Húsið verður opnað klukkutíma fyrir leik.

Áfram Þór, alltaf, alls staðar.