Körfubolti: Öruggur sigur í Hólminum

Hefna Ottósdóttir um það bil að grípa sendingu frá Maddie Sutton og setja niður einn af fimm þristum…
Hefna Ottósdóttir um það bil að grípa sendingu frá Maddie Sutton og setja niður einn af fimm þristum sínum í þriðja leikhluta.

Þór vann öruggan sigur á Snæfelli í 12. umferð Subway-deildarinnar í gær og situr nú í 5. sæti deildarinnar með sjö sigra í tólf leikjum. 

Óhætt er að segja að Þórsliðið hafi byrjað leikinn afar illa, að vísu með tveggja stiga forystu þegar tvær og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta, en þá komu níu stig í röð frá Snæfelli og Þórsarar 17-10 undir eftir leikhlutann, en það breyttis fljótt í öðrum leikhluta sem Þór vann með 21 stigi og því með 14 stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Hrefna Ottósdóttir ákvað svo að raða niður þristum í þriðja leikhluta. Hún skoraði 17 stig í leiknum, þar af 15 úr þriggja stiga skotum í þriðja leikhlutanum. Eftir að Þórsliðið hrökk í gang í öðrum leikhluta var aldrei spurning um úrslitin og forystan jókst hratt og örugglega upp í 33 stig í lok þriðja leikhluta. Snæfell náði að minnka muninn í 23 stig um tíma í fjórða, en Þórsliðið bætti aftur í og vann með 33 stigum.

Snæfell - Þór (17-10) (10-31) 27-41 (16-32) (22-25) 65-98

Þegar upp var staðið höfðu allar í Þórsliðinu komist á blað og þar á meðal komu þristar frá þeim yngstu sem spiluðu í gær,  tveir Vöku Bergrúnu Jónsdóttur (2008) og einn frá Valborgu Elvu Bragadóttur (2006). Lore Devos heldur áfram að skora eins og enginn sé morgundagurinn, var með 37 stig í gær, tíu fráköst og fimm stoðsendingar. Hrefna kom næst í stigaskori með 17 stig. Maddie Sutton hafði óvenju hægt um sig í stigaskori, en öflug í fráköstunum eins og alltaf.

Þórsliðið var með yfirhöndina í nánast öllum tölfræðiþáttum leiksins, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Skoða má ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ með því að smella á myndina. 

Stig/fráköst/stoðsendingar

Snæfell: Shawnta Grenetta Shaw 16/11/5, Jasmina Jones 16/4/1, Eva Rupnik 11/5/3, Mammusu Secka 10/3/1, Viktoria Norðdahl 8/2/1, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/1/1, Alfa Frost 2/0/1. 

Þór: Lore Devos 37/10/5, Hrefna Ottósdóttir 17/4/2, Maddie Sutton 8/14/5, Eva Wium Elíasdóttir 8/5/5, Karen Lind Helgadóttir 6/0/3, Heiða Hlín Björnsdóttir 6/0/3, Vaka Bergrún Jónsdóttir 6/1/0, Jovanka Ljubetic 4/1/5, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3/2/0, Valborg Elva Bragadóttir 3/0/1.

Með sigrinum í gær skaust Þórsliðið upp í fimmta sæti Subway-deildarinnar, en tveir leikir verða spilaðir í 12. umferðinni í kvöld. Þór er með sjö sigra í 12 leikjum. Liðið var jafnt Haukum og Val fyrir umferðina. Valur tapaði í gær, en Haukar eiga leik gegn Njarðvík í kvöld. Það er ekki langt í liðin fyrir ofan heldur því þar eru Njarðvík (sem á leik inni) og Stjarnan með átta sigra.

Daniel Andri Halldórsson, þjálfari Þórsliðsins, fór í viðtal hjá karfan.is eftir leik.

Næsti leikur Þórs í deildinni er heimaleikur gegn Val, en áður en að honum kemur er heimaleikur á dagskrá í bikarkeppninni.

Næst

  • Mót: Vís-bikarinn, 16 liða úrslit
  • Leikur: Þór - Aþena
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Laugardagur 9. desember
  • Tími: 18:00

Þarnæst

  • Mót: Subway-deildin
  • Leikur: Þór - Valur
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Þriðjudagur 12. desember
  • Tími: 18:15