Körfubolti: Senda fullt af krafti, töfrum og góðum straumum!

Þegar frétt heimasíðunnar um undanúrslitaleik Þórs og Grindavíkur í VÍS-bikarkeppni kvenna í körfubolta var deilt á Facebook birtust töfrar í athugasemdum við fréttina.

Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir setti þar inn athugasemd og myndir. Þar segir hún að stelpurnar í minniboltanum, 10-11 ára, sendi fullt af krafti, töfrum og góðum straumum. „Þær hittust í gær til að undirbúa daginn þar sem þær komast ekki suður í dag. Mér heyrðist samt að þær yrðu allar lausar á laugardaginn til að fara suður,“ skrifar Hrafnhildur og setur inn teikningar eftir stelpurnar, mynd af Þórsfánanum og heimilinu og stelpunum að framleiða töfrana fyrir stelpurnar okkar í kvöld.

„Eru ekki örugglega allir að taka þetta alla leið,“ spyr Hrafnhildur.

Við stóðumst ekki mátið að stela myndunum og varðveita þær líka hér á heimasíðunni.