Körfubolti: Sigur gegn Selfyssingum

Reynir Róbertsson skoraði 32 stig, tók þrjú fráköst og átti sex stoðsendingar. Myndin er úr leiknum …
Reynir Róbertsson skoraði 32 stig, tók þrjú fráköst og átti sex stoðsendingar. Myndin er úr leiknum gegn KR. Mynd: Páll Jóhannesson.
- - -

Þórsarar unnu sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í körfubolta þegar þeir mættu liði Selfoss í Íþróttahöllinni í gær.

Leikurinn var jafn lengst af fyrri hálfleik, Selfyssingar með forskot lengst af fyrsta leikhluta, en Þórsarar tóku kipp og náðu fimm stiga forskot í lok fyrsta leikhluta og juku forskotið í níu stig í lok fyrri hálfleiks. Það forskot hélt síðan út allan leikinn, munurinn lengst af 5-10 stig nema hvað góður sprettur í þriðja leikhluta færði Þórsurum 16 stiga forskot. Selfyssingar söxuðu á það og munurinn orðinn fjögur stig snemma í fjórða leikhluta. Þá kom aftur góður kafli Þórsara sem sigldu sigrinum nokkuð örugglega heim. Munurinn á endanum 13 stig, 93-80.

Þór - Selfoss (23-18) (28-24) 51-42 (20-20) (22-18) 93-80

Reynir Róbertsson, Harrison Butler og Jason Gigliotti voru öflugastir í liði Þórs, en Michael Asante yfirburðarmaður hjá Selfyssingum. Reynir skoraði 32 stig, tók þrjú fráköst og átti sex stoðsendingar. Harri Butler var einnig frábær, þrátt fyrir að vera að stíga upp úr meiðslunum sem hann hlaut fyrir viku í leiknum gegn Fjölni. Hann skoraði 27 stig og tók sjö fráköst. Jason Gigliotti var sem fyrr öflugur í fráköstunum, tók þrettán slík auk þess að skora 19 stig. Michael Asante skoraði 34 stig, tók 25 fráköst og átti sjö stoðsendingar fyrir Selfyssinga.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór
Reynir Róbertsson 32/3/6, Harrison Butler 27/7/1, Jason Gigliotti 19/13/2, Baldur Örn Jóhannesson 11/9/1, Smári Jónsson 4/5/6. Viktor Árnason tók fjögur fráköst og átti eina stoðsendingu. Andri Már Jóhannesson tók eitt frákast.

Selfoss
Michael Asante 34/25/7, Ísak Júlíus Perdue 16/5/2, Arnór Eyþórsson 12/3, Birkir Hrafn Eyþórsson 8/6/3, Geir Helgason 8, Svavar Ingi Stefánsson 2/1.

Ítarleg tölfræði leiksins (kki.is)

Eins og sjá má á þessu skjáskoti af tölfræði leiksins voru liðin nokkuð jöfn í flestum þáttum leiksins, en skotnýting Þórsara ívið betri.

Þórsarar lyftu sér af botninum með sigrinum í gær, en þeir eru nú jafnir Snæfelli, Hrunamönnum og Selfyssingum með einn sigur. Ármann er eina liðið án sigurs í deildinni. Þórsarar eiga næst útileik gegn ÍR.

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: ÍR - Þór
  • Staður: Skógarsel
  • Dagur: Föstudagurinn 3. nóvember
  • Tími: 19:15