Körfubolti: Þór tekur á móti Njarðvík í Subway-deildinni

Í kvöld er komið að fimmta leik Þórs í Subway-deild kvenna þegar stelpurnar fá Njarðvíkinga í heimsókn í Höllina.

Njarðvíkingar hafa byrjað vel, hafa unnið þrjá leiki í röð eftir að þær töpuðu fyrsta leiknum gegn Keflavík. Þær hafa síðan þá sigrað Breiðablik, Hauka og Grindavík og ljóst að hér er á ferðinni eitt af sterkustu liðum deildarinnar.

Með góðum leik og góðri stemningu innan vallar og í stúkunni hafa stelpurnar í Þór sýnt að þær eiga fullt erindi í úrvalsdeildina. Þær hafa unnið tvo leiki, gegn Stjörnunni og Snæfelli, en tapað tveimur, gegn Fjölni og Val.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig þær mæta til leiks gegn sterku liði Njarðvíkinga eftir að þær sýndu sjálfum sér og stuðningsfólki í leik gegn Íslandsmeistaraliði Vals í fjórðu umferðinni að þær geta allt á góðum degi.

  • Deild: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Þór - Njarðvík
  • Staður: Íþróttahöllin
  • Dagur: Þriðjudagur 17. Október
  • Tími: 18:15