Körfubolti: Þór vann Fjölni

Þór sigraði Fjölni með tíu stiga mun í 11. umferð Subway-deildar kvenna í körfbolta í dag. Þetta var sjötti sigur liðsins það sem af er móti.

Maddie Sutton spilar meidd þessa dagana eftir árekstur við Huldu Ósk Bergsteinsdóttur í sigurleiknum gegn Keflvíkingum á dögunum. Hulda Ósk er hins vegar enn frá keppni vegna meiðslanna sem hún hlaut í sama atviki. Maddie spilaði ekkert í útileiknum við Stjörnuna, en í kvöld spilaði hún 40 mínútur, eins og Lore Devos. Báðar skiluðu sínu mjög vel, Lore með 25 stig og átta fráköst, Maddie með 23 stig og 15 fráköst. Lore var valin Sjóvá-leikmaður leiksins og fékk að launum gjafabréf frá AK-INN.

Maddie hélt áfram þar sem frá var horfið í sigurleiknum gegn Keflvíkingum, skoraði sjö fyrstu stig Þórs áður en liðsfélagar hennar komust á blað. Þórsarar náðu forystunni strax og héldu henni út allan leikinn. Munurinn var fimm stig eftir fyrsta leikhluta og 13 stig eftir fyrri hálfleikinn.

Gestirnir voru ekki á því að gera Þórsurum of auðvelt fyrir og náðu að saxa vel á forskotið í þriðja leikhluta og munurinn fjögur stig rétt fyrir lok hans. Það þótti okkar konum nóg og komu með gott áhlaup í fjórða leikhlutanum, munurinn orðinn 16 stig þegar nokkrar mínútur voru eftir, en gestirnir náðu að minnka hann niður í tíu stig áður en tíminn rann út, lokatölurnar 85-75.

Með sigrinum í kvöld og eftir að Haukar unnu Val eru Þór, Haukar og Valur í einum hnapp í 5.-7. sæti deildarinnar með sex sigra og fimm töp. Þrír síðustu leikir 11. umferðarinnar verða spilaðir á morgun.

Þór - Fjölnir (24-19) (21-13) 45-32 (17-24) (23-19) 85-75

Helstu tölur - smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði á vef KKÍ.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Lore Devos 25/8/1, Maddie Sutton 23/15/4, Jovanka Ljubetic 13/3/4, Hrefna Ottósdóttir 8/5/1, Eva Wium Elíasdóttir 8/3/2, Karen Lind Helgadóttir 3/1/1, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3, Heiða Hlín Björnsdóttir 2/3/1.

Fjölnir: Raquel Laneiro 35/3/3, Korinne Campbell 24/12/1, Heiður Karlsdóttir 6/11, Sigrún Birgisdóttir 5/1, Stefanía Ósk Ólafsdóttir 3/1/1, Bergdís Magnúsdóttir 2/1/3.

Leikjadagskráin hjá Þórsliðinu er þétt eins og áður hefur komið fram og næsti leikur er strax á þriðjudagskvöld gegn Snæfelli í Stykkishólmi.

  • Mót: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Snæfell - Þór
  • Staður: Stykkishólmur
  • Dagur: Þriðjudagur 5. Desember
  • Tími: 19:15