Körfubolti: Þórsstelpur stórkostlegar gegn taplausu toppliði

Þór varð fyrsta liðið til að sigra Keflavík í Subway-deild kvenna á þessu tímabili þegar liðin mættust í frestuðum leik í Íþróttahöllinni í dag. Lokatölur urðu 87-83 og lögðu stelpurnar okkar grunninn að sigrinum með stórkostlegri frammistöðu í fyrri hálfleik, náðu þá mest 22ja stig forystu, en munurinn 18 stig þegar liðin gengu til búningsklefa.

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir gaf tóninn með þristi í fyrstu sókn og greinilegt að okkar konur vildu ekki upplifa annan leik eins og í Smáranum fyrir rúmri viku. Frá fyrstu sekúndu réði leikgleði, barátta og sigurvilji ferðinni og aðeins einu sinni náðu gestirnir úr Keflvík forystunni, 7-10, með þristi þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Tvisvar á næstu mínútum var jafnt, 10-10 og 13-13, en forystan var Þórsara það sem eftir var.

Tvær meiddar út af

Þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum var munurinn orðinn 20 stig, 51-31. Skömmu síðar varð Þórsliðið fyrir áfalli þegar Maddie Sutton og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir lentu illa í baráttu um frákast. Báðar urðu að fara af velli og kom Hulda Ósk ekki meira við sögu í leiknum. Maddie hvíldi alveg í þriðja leikhluta, en var mætt aftur í þeim fjórða og spilaði síðustu tæpar sjö mínútur leiksins. Mikilvægi hennar kom berlega í ljós í þriðja leikhluta, hafi einhver ekki áttað sig á því áður.

Skotnýting Þórsliðsins var frábær, sérstklega í fyrri hálfleiknum, eins og sjá má af skjáskotinu hér að neðan. Yfir 50% nýting, 10 þristar ofan í af 18, svo dæmi sé tekið.


Helstu tölur úr fyrri hálfleiknum. Skjáskot af kki.is.

Keflvíkingar sóttu hratt á í þriðja leikhluta

Keflvíkingar nýttu sér fjarveru frákastadrottningarinnar okkar og unnu þriðja leikhlutann með 12 stiga mun. Eflaust hafa gestirnir séð fram á að þær myndu sigla sigrinum heim þegar munurinn var kominn niður í tvö stig seint í þriðja leikhluta, en okkar stelpur byrjuðu fjórða leikhlutann vel og sýndu að þeim var alvara að ætla sér að vinna leikinn. Þristar frá Rebekku Hólm Halldórsdóttur og Hrefnu Ottósdóttur komu Þór í átta stiga forystu, en aftur minnkuðu gestirnir muninn niður í þrjú stig, 71-68. Skömmu áður hafði Maddie komið aftur inn í leikinn eftir að hafa fengið aðhlynningu og hvílt frá því seint í fyrri hálfleik, samtals í tæpar 15 leikmínútur.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi og munurinn á bilinu tvö til níu stig. Þórsliðið sýndi sannarlega í fjórða leikhlutanum að hingað getur ekkert lið komið og búist við auðveldum sigri. Það var vissulega taugatrekkjandi að horfa upp á 18 stig forskot verða næstum að engu í þriðja leikhlutanum, en þá fannst okkar stelpum nóg komið. Daniela Wallen, besti leikmaður Keflavíkur, fékk sína fimmtu villu þegar tæpar sex mínútur voru eftir og hafði það eflaust einhver áhrif, en það tekur þó ekkert af okkar stelpum, því þær voru frábærar og sýndu mikinn styrk þegar besta lið landsins gerði sig líklegt til að stela sigrinum.

Frábær stemning innan og utan vallar

Þó svo áhorfendur hafi aðeins verið á bilinu 150-160 var stuðningur þeirra stórkostlegur, sérstaklega þegar halla fór undan fæti og Keflvíkingar gerðu sig líklegar til að stela sigrinum. Þá sameinaðist orkan innan vallar sem utan og sigldi sigrinum í höfn, niðurstaðan á endanum fjögurra stiga sigur, 83-87.

Að öðrum ólöstuðum var Maddie Sutton stórkostleg í dag, skoraði 26 stig á 25 mínútum, tók tíu fráköst og átti fimm stoðsendingar. Hún var með 100% skotnýtingu nema úr vítaskotum, 9/9 úr tveggja stiga skotum og eina þriggja stiga körfu að auki. Jovanka Ljubetic hefur mögulega komið einhverjum sérfræðingum á óvart enda fengið ósanngjarna umfjöllun á köflum. Hún skoraði 17 stig, tók níu fráköst og átti tvær stoðsendingar. Það er þó kannski ekki sanngjarnt að taka einstaka leikmenn út úr hvað frammistöðu varðar því sigurinn má ekki síður þakka frábærri liðsframmistöðu og gríðarlegri orku úr stúkunni.

Þór - Keflavík (27-21) (27-15) 54-36 (10-22) (23-25) 87-83

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Maddie Sutton 26/10/5, Jovanka Ljubetic 17/9/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 12/4/1, Lore Devos 10/6/7, Eva Wium Elíasdóttir 8/3/6, Hrefna Ottósdóttir 7/5, Heiða Hlín Björnsdóttir 4/6/1, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3.

Keflavík: Daniela Wallen 19/13/1, Eliza Pinzan 17/1/6, Birna Benónýsdóttir 15/7/2, Thelma Ágústsdóttir 11/3/2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 6/5/2, Agnes Svansdóttir 6/2, Anna Ingunn Svansdóttir 3/2/3.

Helstu tölur. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ.

Þórsliðið er með fimm sigra í 6. sæti deildarinnar, með jafn marga sigra og Íslandsmeistarar Vals, en þar fyrir ofan eru Grindavík og Stjarnan með sex sigurleiki, Njarðvík með sjö og Keflavík átta.

Fyrir leikinn í dag hafði Keflavíkurliðið unnið fyrstu átta leiki sína í deildinni, að meðaltali með yfir 16 stiga mun. Það eru því sennilega engar ýkjur að halda því fram að enginn hafi búist við eða ætlast til að Þór myndi vinna leikinn - nema þá stelpurnar sjálfar og þjálfararnir, því ekki var annað að sjá á þeim í kvöld en að hópurinn hafi frá upphafi til enda haft trú á verkefninu.

En trúin flytur fjöll og vinnur ósigruð lið. Það sáum við í Höllinni í dag.

Engin þörf á viðtölum á Akureyri?

Nú hefur Þórsliðið mætt öllum liðum í deildinni og unnið fimm af níu. Stemningin í liðinu hefur verið frábær og vakið verðskuldaða athygli. Stemningin í Höllinni hefur verið frábær og einnig vakið athygli. Umfjöllunin hefur verið jákvæð að mestu, en það vekur þó sérstaka athygli og veldur verulegum vonbrigðum að ekki virðist talin þörf á að taka viðtöl við þjálfara liða eftir leiki hér fyrir norðan. 

Nú er stutt í næstu átök, innan við 48 tímar frá lokum leiks í dag þar til flautað verður til næsta leiks og hann er, eins og fram hefur komið hér heimasíðunni, strax á þriðjudagskvöld.

Myndir Palla Jóh úr leiknum má finna á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar.

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Stjarnan - Þór
  • Staður: Umhyggjuhöllin í Garðabæ
  • Dagur: Þriðjudagur 28. nóvember
  • Tími: 18:15