Lykilmenn framlengja

Gengið frá samningum við fimm leikmenn.
Frá vinstri: Þorlákur Árnason, þjálfari meistaraflokks, Við…
Gengið frá samningum við fimm leikmenn.
Frá vinstri: Þorlákur Árnason, þjálfari meistaraflokks, Viðar Már Hilmarsson, Bjarki Þór Viðarsson, Rafnar Máni Gunnarsson, Aron Birkir Stefánsson og Fannar Daði Malmquist Gíslason.
Mynd - Skapti Hallgrímsson

Þrír leikmenn hafa endurnýjað samninga sína við Þór og einn ungur leikmaður gerði á sama tíma sinn fyrsta samning við félagið.

Aron Birkir Stefánsson, Bjarki Þór Viðarsson og Fannar Daði Malmquist Gíslason, sem allir hafa verið í lykilhlutverki í liði Þórs undanfarin ár hafa framlengt sína samninga.

Aron Birkir, 23 ára, gerir samning til ársins 2024. Aron Birkir hefur leikið 165 leiki fyrir meistaraflokk Þórs auk þess að hafa leikið fyrir öll yngri landslið Íslands.

Aron Birkir Stefánsson

Bjarki Þór, 25 ára, gerir samning til ársins 2024. Bjarki hefur leikið 140 leiki fyrir Þór í deild, bikar og deildarbikar auk þess að hafa leikið fyrir öll yngri landslið Íslands.

Bjarki Þór Viðarsson

Fannar Daði, 26 ára, gerir samning til ársins 2024. Fannar hefur leikið 63 leiki fyrir Þór í deild, bikar og deildarbikar og skorað í þeim 14 mörk. Fannar meiddist illa í fyrsta leik Lengjudeildarinnar síðasta sumar en hefur lagt hart að sér í endurhæfingu síðan og útlit fyrir að hann komi tvíefldur til baka úr meiðslunum en Fannar var markahæsti leikmaður liðsins sumarið 2021.

Fannar Daði Malmquist Gíslason

Þá hefur hinn 19 ára gamli Viðar Már Hilmarsson skrifað undir sinn fyrsta samning við Þór og gildir hann til ársins 2024. Viðar Már gekk upp úr 2.flokki í haust eftir að hafa farið upp í alla yngri flokka félagsins en hann þreytti frumraun sína með meistaraflokki í sumar og kom við sögu í þremur leikjum í Lengjudeildinni.

Viðar Már Hilmarsson

Eins og greint var frá fyrr í dag er Rafnar Máni Gunnarsson genginn til liðs við Þór og því alls fimm leikmenn sem voru að skrifa undir samning.

Óskum strákunum til hamingju með samningana og hlökkum til að sjá þá láta ljós sitt skína á vellinum næsta sumar.