Margrét Árnadóttir aftur í raðir Þórs/KA

Þór/KA hefur fengið Margréti Árnadóttur (1999) aftur í sínar raðir eftir að hún var hjá Parma Calcio 1913 á Ítalíu frá áramótum fram á sumar. Margrét hefur skrifað undir nýjan samning við Þór/KA og hafa félagaskipti hennar frá Ítalíu til Þórs/KA þegar verið staðfest.

Margrét hafði leikið allan sinn meistaraflokksferil með Þór/KA áður en hún hélt til Ítalíu um áramótin. Hún kom fyrst við sögu með meistaraflokki í Lengjubikarnum 2016, en fyrsta skipti í efstu deild, þá Pepsi-deildinni, í maí 2016. Margrét á að baki 136 leiki með Þór/KA, þar af fjóra í Evrópukeppni.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að fá Margréti aftur inn í okkar sterka hóp,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Með henni fáum við inn meiri reynslu og gæði í annars mjög ungan og efnilegan leikmannahóp, við aukum breiddina, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur fyrir lokakafla hefðbundnu deildarkeppninnar og svo áfram í leikjunum sem bætast við eftir tvískiptinguna. Við eigum sex leiki eftir í deildinni sem raðast á innan við mánuð og þar mun breiddin skipta miklu máli. Við vitum alveg hvað Margrét getur, vitum hvað við erum að fá. Magga getur leyst margar stöður og á eftir að styrkja okkur mikið. Hún er ein af okkur og þekkir allt hér og við þekkjum hana, þannig að Margrét mun smella vel inn í hópinn hjá okkur og okkar leik, það er enginn vafi,” segir Jóhann Kristinn.

Margrét kom aftur til starfa hjá unglingaráði knattspyrnudeildar Þórs þegar hún kom heim frá Ítalíu og starfar sem þjálfari hjá félaginu. Nú er ljóst að hún verður áfram hér fyrir norðan því hún hefur skrifað undir samning við Þór/KA og er komin með keppnisleyfi.

Velkomin heim, Margrét!