Margrét Árnadóttir frá Þór/KA til Parma

Margrét Árnadóttir komin í Parma-treyjuna.
Margrét Árnadóttir komin í Parma-treyjuna.

Margrét Árnadóttir hefur samið við ítalska félagið Parma Calcio 1913 sem spilar í efstu deild á Ítalíu.

Liðið er sem stendur á botni A-deildarinnar með sex stig eftir 12 leiki, hefur unnið einn leik og gert þrjú jafntefli, en næst fyrir ofan eru fjögur lið með tíu stig. Margrét fékk boð frá liðinu skömmu fyrir áramót um að koma út og skrifa undir samning og þurfti að svara fljótt, að því er fram kemur í frétt á vef Þórs/KA, thorka.is. Hún ákvað að taka stökkið og fór utan upp úr áramótunum og hefur nú undirritað samning við félagið. Félagaskiptin eru þó ekki gengin í gegn, beðið staðfestingar á þeim, þannig að Margrét náði ekki að spila bikarleik með Parma-liðinu gegn Inter í dag. 

Auk þess að æfa og spila með Þór/KA hefur Margrét starfað sem þjálfari hjá unglingaráði Þórs og verið í þjálfarateymi 5. og 6. flokks kvenna, en hefur látið af því starfi. Í spjalli á thorka.is kemur meðal annars fram að tilfinningarnar séu blendnar á þessum tímamótum „Auðvitað er mikill spenningur, en samt líka stress. Það er mjög erfitt að fara frá Akureyri, bæði Þór/KA og öllum stelpunum sem ég er að þjálfa, en einhvern tímann verður maður að taka stökkið,“ segir Margrét, í viðtalinu á thorka.is.

Nánar er rætt við Margréti um þetta skref sem hún er að stíga núna út í atvinnumennskuna á thorka.is - sjá hér

 

.