Mark á 96. mínútu og Leiknir hirti stigin

Úr leik Þórs og Leiknis í Mjólkurbikarkeppninni fyrr í sumar. Mynd: Páll Jóhannesson
Úr leik Þórs og Leiknis í Mjólkurbikarkeppninni fyrr í sumar. Mynd: Páll Jóhannesson

Þrátt fyrir ágætis frammistöðu koma Þórsarar tómhentir heim úr Breiðholtinu. Þeir náðu ekki að klára færin og skora mark og var refsað fyrir það í viðbótartíma.

Eftir markalausar 95 mínútur í viðureign Þórs og Leiknis í Lengjudeildinni í dag náðu heimamenn að skora sigurmark þegar fimm mínútur voru liðnar af uppbótartímanum. Markið kom með skalla eftir hornspyrnu. Eftir markið og mínútu langan fögnuð leiknismanna leið um hálf mínúta þar til leikurinn var flautaður af. 

  • 1-0  -  Omar Sowe (90+5')

Þórsarar sitja í 7. sætinu með 17 stig úr 14 leikjum, en fyrir ofan þá eru Grótta og Vestri með 19 stig, en hafa leikið einum leik minna. Eins og áður hefur komið fram fara liðin í 2.-5. sæti deildarinnar í umspilsleiki um annað lausa sætið í Bestu deildinni að ári og eins og sjá má á stigatöflunni verður sú keppni væntanlega hörð. Aðeins munar fimm stigum á liðinu í 4. sæti, sem er Leiknir með 20 stig, og liðinu í 10. sæti, sem er Grindavík með 15 stig. 

Næsti leikur Þórs verður heimaleikur gegn Fjölni miðvikudaginn 2. ágúst kl. 18.

Hér er hægt að sjá mark Leiknismanna - og reyndar allan leikinn. Upptaka á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.