Matthías Örn Friðriksson ráðinn þjálfari Píludeildar

Viðar Valdimarsson, stjórnarmaður í Píludeild Þórs, og Matthías Örn Friðriksson, nýr þjálfari Pílude…
Viðar Valdimarsson, stjórnarmaður í Píludeild Þórs, og Matthías Örn Friðriksson, nýr þjálfari Píludeildarinnar, handsala samning um ráðninguna.

Píludeild Þórs hefur ráðið Matthías Örn Friðriksson sem þjálfara Píludeildarinnar. Gengið var frá samningi milli deildarinnar og Matthíasar í dag og gildir samningurinn í eitt ár. Matthías mun sjá um almenna þjálfun og þjálfun afrekshóps deildarinnar. 

Matthías er einn fremsti pílukastari landsins og hefur verið formaður Íslenska pílukastsambandsins í nokkur ár. Hann hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu á pílukastinu á Íslandi undanfarin ár og mikil fyrirmynd fyrir aðra keppendur.

Hann er Þórsurum jafnframt að góðu kunnur sem knattspyrnumaður fyrr á árum, en hann lék með meistaraflokki Þórs 2006-2009 og skoraði fyrsta markið á endurnýjuðum Þórsvelli í 3-2 sigurleik gegn K.A. 22. júlí 2009. Hann á að baki 81 meistaraflokksleik með Þór, skoraði í þeim leikjum sjö mörk, auk leikja með 2. og 3. flokki Þórs á árunum 2002-2005.

Mikil tilhlökkun fyrir verkefninu

Matthías Örn er spenntur fyrir verkefninu. „Ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni. Það er mikill uppgangur í pílunni hjá Þór og vonandi mun ég ná að miðla af minni reynslu og hjálpa bæði þeim pílukösturum sem eru að taka sín fyrstu skref í íþróttinni og þeim sem lengra eru komnir,“ sagði hann í dag eftir að gengið var frá samningi milli hans og Píludeildarinnar.

Davíð Örn Oddsson, formaður Píludeildar Þórs, er í skýjunum með þessa ráðningu. „Það er mikið gleðiefni fyrir Píludeild Þórs að Matti hafi verið tilbúinn að taka við sem þjálfari hjá okkur. Þetta er í fyrsta skipti sem þjálfari er ráðinn hjá Píludeild Þórs og því ríkir mikil spenna hjá stjórn og meðlimum deildarinnar! Mikill uppgangur hefur verið hjá okkur og meðlimum fjölgað um tæplega 50% á síðustu mánuðum. Við horfum því björtum augum á næstu mánuði og það má með sanni segja að framtíð Píludeildar Þórs sé björt,“ segir Davíð Örn.

Hann vekur jafnframt athygli á að aðstaða Píludeildarinnar er öllum opin á mánudags- og miðvikudagskvöldum kl. 19-22 út janúar. Fyrir pílukastara sem hafa áhuga á að gerast meðlimir deildarinnar er rétt að upplýsa að árgjaldið er 15.000 krónur. Hægt er að hafa samband við stjórn deildarinnar í netfanginu pila@thorsport.is. Píludeildin er með Facebook-hóp þar sem hægt er að fylgjast með því sem gerist hjá deildinni.