Mjólkurbikarinn: Þórsarar í átta liða úrslit

Þór vann 3-1 sigur á Leikni í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í knattspyrnu á Þórsvellinum í kvöld. Fannar Daði Malmquist Gíslason spilaði sínar fyrstu mínútur í keppnisleik í meira en ár.

Byrjunarlið Þórs í dag var mjög breytt frá tapleiknum gegn Aftureldingu í deildinni á föstudagskvöldið, aðeins fjórir sem byrjuðu báða þessa leiki. Gleðifrétt dagsins, fyrir utan sigurinn, er svo auðvitað að sjá Fannar Daði Malmquist Gíslason í leikmannahópi Þórs og ná að spila síðustu tíu mínútur leiksins eða svo. Fannar hefur verið frá keppni í meira en ár vegna meiðsla og ekki spilað leik síðan hann fór út af meiddur á 22. mínútu í leik gegn Kórdrengjum í Boganum 6. maí 2022. 

Ár og tíu dagar frá keppni. Fannar Daði Malmquist Gíslason spilaði rúmlega tíu mínútur í dag í sínum fyrsta keppnisleik frá 6. maí 2022. Mynd: Páll Jóhannesson.

Misheppnuð sending og forysta í leikhléi

Þórsarar tóku forystu á lokamínútu fyrri hálfleiksiins eftir slæma sendingu varnarmanns gestanna til baka. Ingimar Arnar Kristjánsson komst inn í sendinguna, fór framhjá markmanninum og alveg upp að endamörkum hægra megin, en hann beið bara rólegur eftir að Aron Ingi Magnússon kæmi á ferðinni, lyfti boltanum þá út á teiginn þar sem Aron Ingi skallaði laglega í markið. Aron Ingi hafði reyndar skorað mark um miðjan fyrri hálfleikinn, en var dæmdur rangstæður. Staðan 1-0 í leikhléinu.

Leiknismenn komu heldur ákafari en Þórsarar út í seinni hálfleikinn, en það er ekki nóg ef mörkin skila sér ekki. Þórsarar áttu hættuleg færi, Aron Ingi meðal annars með skot í þverslá og Rafnar Máni Gunnarsson einnig í góðu færi snemma í seinni hálfleiknum. 

Varamennirnir létu til sín taka

Ion Perello kom inn á í upphafi seinni hálfleiks og hann skoraði annað mark Þórs á 67. mínútu eftir góðan undirbúning frá Mark Sörensen og Valdimar Daða Sævarssyni. Mark, sem hafði komið inn örfáum mínútum áður, fór þá illa með varnarmann Leiknis, renndi boltanum út til hægri á Valdimar daða sem sendi fyrir markið á Ion.

Leiknismenn hleyptu aftur lífi í leikinn á 72. mínútu. Þá kom langur bolti fram eftir slaka sendingu Þórsara upp við teiginn hjá Leikni. Omar Sowe fór framhjá Birgi Ómari Hlynssyni í vörninni og renndi boltanum út í teiginn þar sem Róbert Hauksson var aleinn og skoraði auðveldlega. Gestirnir voru síðan óþægilega nálægt því að jafna leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka, en Þórsarar náðu að bjarga á ævintýralegan hátt, Birgir Ómar bjargaði þá á línu eftir að Ómar Castaldo Einarsson hafði varið vel rétt áður.

Þórsarar létu sér þetta að kenningu verða og skoruðu þriðja markið örfáum mínútum síðar, tímabært að ganga frá leiknum. Boltinn barst þá út á hægri kantinn á Ragnar Óla Ragnarsson sem sendi boltann inn á teiginn þar sem Ingimar Arnar Kristjánsson klippti hann í netið.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mjólkurbikarinn á vef KSÍ.

Mörkin - á Twitter hjá RÚV. 


Ingimar Arnar Kristjánsson í kröppum dansi með takka Leiknismanna allt í kring. Smellið á myndirnar til að opna albúm með fleiri myndum úr leiknum. Mynd: Páll Jóhannesson.

Dregið á föstudag

Leikur Þórs og Leiknis var sá fyrsti í 16 liða úrslitunum, en þau klárast á fimmtudag. Þangað til geta Þórsarar látið hugann reika og velt fyrir sér óskamótherja í átta liða úrslitunum. Það verður að minnsta kosti eitthvað af þeim liðum sem sjá má á skjáskotinu hér að neðan. Dregið verður í átta liða úrslitin í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu á föstudaginn.