Nói Björnsson kjörinn formaður Þórs

Nói Björnsson, nýr formaður Íþróttafélagsins Þórs, og Þóra Pétursdóttir, fráfarandi formaður.
Nói Björnsson, nýr formaður Íþróttafélagsins Þórs, og Þóra Pétursdóttir, fráfarandi formaður.

Aðalfundur Íþróttafélagsins Þórs fór fram í Hamri í gær. Nói Björnsson tekur við af Þóru Pétursdóttur sem formaður félagsins, en Þóra verður áfram í stjórninni.

Aðalfundir deilda Þórs hafa farið fram, þeir fyrstu í janúar og þeir síðustu daginn fyrir aðalfund félagsins.

Þóra Pétursdóttir, fráfarandi formaður, fór yfir starfsárið fyrir hönd aðalstjórnar Þórs, stiklaði á stóru varðandi ýmis mál og kom meðal annars inn á það að í næstu viku muni starfshópur á vegum félagsins eiga fyrsta formlega fundinn með fulltrúum Akureyrarbæjar vegna uppbyggingar á íþróttasvæði félagsins og er þá helst vísað til lagningar gervigrass og byggingar íþróttamiðstöðvar þar sem áhersla félagsins verður á að fá allar deildirnar og aðstöðu þeirra heim á félagssvæðið við Hamar. 

Unnsteinn Jónsson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og afkomu einstakra deilda. Rekstur og afkoma er mjög mismunandi á milli deilda og til dæmis standa tvær af yngstu deildum félagsins, píludeild og rafíþróttadeild, mjög vel og rekstrarniðurstaða jákvæð. Fjölmennari deildirnar, handknattleiksdeild, körfuknattleiksdeild og knattspyrnudeild, eiga allar á brattan að sækja og afkoma þeirra misjafnlega slæm.

Nokkrar orðalagsbreytingar voru gerðar á lögum félagsins og verða þær kynntar sérstaklega í annarri frétt. Fundarmenn, sem því miður voru ekki of margir, tóku til máls um hin ýmsu málefni sem tengjast félaginu og deildum þess.

Ingi Steinar Ellertsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og kemur Sigurður Bjarnar Pálsson inn í hans stað. Eva Halldórsdóttir, Unnsteinn Jónsson, Íris Ragnarsdóttir, Þorgils Sævarsson, Ragnar Níels Steinsson og Jakobína Hjörvarsdóttir verða áfram í stjórn félagsins.