Ólöf Heiða og Kolbrún Gígja í undanúrslit

Ólöf Heiða Óskarsdóttir og Kolbrún Gígja Einarsdóttir náðu lengst þeirra Þórsara sem tóku þátt í Ísl…
Ólöf Heiða Óskarsdóttir og Kolbrún Gígja Einarsdóttir náðu lengst þeirra Þórsara sem tóku þátt í Íslandsmótinu í tvímenningi í 501 í pílukasti. Mynd: dart.is.

Ólöf Heiða Óskarsdóttir og Kolbrún Gígja Einarsdóttir komust í undanúrslit í Íslandsmótinu í 501 í pílukasti, tvímenningi. Metþátttaka var hjá keppendum frá píludeild Þórs, en árangurinn ekki eins og vonast var til.

Dóra Óskarsdóttir og Sunna Valdimarsdóttir fóru áfram úr riðlinum í átta liða úrslit, en töpuðu þar 4-0 fyrir Steinunni Dagnýju Ingvarsdóttur og Söndru Dögg Guðlaugsdóttur.

Valþór Atli Birgisson og Steinþór Már Auðunsson náðu lengst Þórsara í karlaflokki. Þeir unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum, sína viðureign 4-1 í 32ja liða úrslitum, en töpuðu 4-3 fyrir Orra Frey Hjaltalín og Scott Ramsay í 16 liða úrslitunum.

Andri Geir Viðarsson og Sverrir Freyr Ingason unnu eina viðureign og töpuðu þremur í riðlinum, komust engu að síður áfram, en töpuðu 4-0 í 32ja liða úrslitum á móti Birni Steinari Brynjólfssyni og Matthíasi Erni Friðrikssyni, sem fóru alla leið í úrslitaleikinn.

Jón Svavar Árnason og Friðrik Gunnarsson unnu tvo leiki og töpuðu tveimur í riðlinum, en töpuðu fyrir Orra Frey Hjaltalín og Scott Ramsey, 4-1, í 32ja liða úrslitum.

Óskar Jónasson og Edgars Kede Kedza unnu alla fjóra leiki sína í riðlinum og fóru örugglega áfram í 32ja liða úrslitin, en töpuðu þar 4-2 fyrir Lukasz Knapik og Sebastian Spychala í 32ja liða úrslitum.

Ágúst Örn Vilbergsson og Jason Wright unnu tvo leiki og töpuðu tveimur í riðlinum, en töpuðu í 32ja liða úrslium á móti Joseph Doroon og Rudolf Francis Einarssyni.

Davíð Örn Oddsson og Viðar Valdimarsson drógust í það sem kalla mætti dauðariðil, fengu erfiða andstæðinga og töpuðu sínum viðureignum, þar á meðal á móti parinu sem stóð uppi sem Íslandsmeistarar, sem voru þeir Guðjón Hauksson og Hörður Þór Guðjónsson. Þeir fóru því ekki upp úr riðlinum.

Sömu sögu er að segja af Garðari Þórissyni og Sigurði Þórissyni. Þeir unnu tvo leiki af fimm í riðlinum, en það dugði ekki til að komast áfram í 32ja liða úrslitin.

Öll úrslit í mótinu - dartconnect.com