Ósigur þrátt fyrir góða byrjun

Jason Gigliotti í baráttu við KR-inga. Þórsarar unnu frákastabaráttuna, en það dugði ekki til. Mynd:…
Jason Gigliotti í baráttu við KR-inga. Þórsarar unnu frákastabaráttuna, en það dugði ekki til. Mynd: Páll Jóhannesson

Þrátt fyrir ágæta byrjun og góða kafla í leiknum gegn KR-ingum í 2. umferð 1. deildar karla í körfubolta í gær náðu Þórsarar ekki að sigra gamla stórveldið. KR-ingar vöknuðu í 2. leikhluta og sigldu sigrinum í höfn nokkuð örugglega þegar leið á seinni hálfleikinn.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og unnu fyrsta leikhlutann 20-15 og héldu forystunni fram í miðjan annan leikhluta, en þá hrukku KR-ingar í gang og náðu mest tíu stiga forystu þegar leið á annan leikhluta og höfðu sex stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn, 36-42.

Lengi vel í seinni hálfleik var munurinn 6-12 stig, en KR-ingar hleyptu Þórsurum aldrei of nærri. Þegar leið á fjórða leikhluta juku gestirnir forystuna, munurinn mestur 18 stig og sigur KR-inga ekki í hættu. Lokaniðurstaðan var 12 stiga sigur KR.

Þór - KR (20-15) (16-27) 36-42 (25-28) (22-25) 83-95

Þegar tölfræðin er skoðuð er athyglisvert að Þórsarar tóku mun fleiri fráköst en KR-ingar, 54 á móti 35. KR-ingar voru með betri skotnýtingu í tveggja stiga skotum og vítaskotum, en það sem varð okkar mönnum að falli voru tapaðir boltar. Þar munaði 13 á liðunum, Þór með 22 tapaða bolta á móti níu hjá KR. Stig úr hraðaupphlaupum voru enda mun fleiri hjá KR, 25 stig komu þannig á móti níu hjá Þórsurum.

Harry Butler var langatkvæðamestur Þórsara með 32 stig, Jason Gigliotti skoraði 13 og tók 13 fráköstu, Smári Jónsson skoraði 13 og átti sjö stoðsendingar. Baldur Örn Jóhannesson tók 13 fráköst.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór
Harry Butler 32/8/2, Smári Jónsson 13/4/7, Jason Gigliotti 13/13/1, Reynir Róbertsson 10/6/2, Baldur Örn Jóhannesson 9/13/3. Sigurjón Guðgeirsson Hjarðar, Fannar Ingi Kristínarson og Andri Már Jóhannesson skoruðu tvö stig hver. Kolbeinn Fannar Gíslason tók þrjú fráköst og Hákon Hilmir Arnarsson tók tvö fráköst og átt eina stoðsendingu.

KR
Dani Koljanen 24/5/3, Tony Cracknell 16/6/2, Veigar Áki Hlynsson 11/2/3, Adama Kasper Darbo 11/2/6, Oddur Rúnar Kristjánsson 10/3/3, Gunnar Ingi Harðarson 7/2/1, Arnór Hermannsson 5/1/3, Arnaldur Grímsson 3/2/2. Alexander Knudsen, Friðrik Anton Jónsson, Illugi Steingrímsson og Hjörtur Kristjánsson skoruðu tvö stig hver.

Þriðji leikur Þórs í deildinni verður útileikur gegn Fjölni föstudaginn 20. Október og aðeins tveimur dögum seinna taka þeir á móti úrvalsdeildarliði Hauka í fyrstu umferð bikarkeppninnar.

Næstu leikir:

  • Deild: 1. deild karla
    Leikur: Fjölnir - Þór
    Staður: Dalhús
    Dagur: Föstudagur 20. október
    Tími: 19:15
  • Keppni: VÍS-bikar karla
    Leikur: Þór - Haukar
    Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
    Dagur: Sunnudagur 22. Október
    Tími: 18:00