Pílukast: Stórhuga pílufólk yfirtekur Sjallann!

Skjáskot úr myndbandi sem píludeildin birti með tilkynningu um stærsta pílumót sem haldið hefur veri…
Skjáskot úr myndbandi sem píludeildin birti með tilkynningu um stærsta pílumót sem haldið hefur verið á Akureyri.

Píludeild Þórs hefur verið í mikilli sókn undanfarin misseri og toppar sig með því að skipuleggja stærsta pílumót sem haldið hefur verið á Akureyri. Í boði eru 128 sæti á Akureyri Open sem haldið verður 23.-24 febrúar 2024. Til að koma mótinu fyrir dugar ekki minna en að fylla aðstöðu píludeildarinnar við Laugargötu og yfirtaka Sjallann!

Akureyri Open hefur verið haldið árlega af píludeild Þórs í fjölda ára og verður mótið 2024 það stærsta hingað til og þar með einnig fjölmennasta pílumót sem haldið hefur verið á Akureyri. Mótið verður til að mynda tvöfalt fjölmennara en á þessu ári. Keppt verður í karla- og kvennaflokki og samtals hægt að taka við 128 keppendum. Keppt er í einmenningi í 501. Verðmæti vinninga verður 700.000 krónur. 

Mótið verður haldið í samstarfi píludeildarinnar og Sjallans og spilað á báðum stöðum. Leikir í riðlakeppninni verða spilaðir á föstudagskvöld og laugardag í aðstöðu píludeildarinnar við Laugargötu og í Sjallanum, en hápunktur mótsins verður í Sjallanum á laugardagskvöldinu. Markmiðið er að ná upp alvöru stemningu í Sjallanum á laugardagskvöldinu og áformað að þar fari fram átta manna úrslit, undanúrslit og úrslitaleikur í karlaflokki og undanúrslit og úrslitaleikur í kvennaflokki - á stóra sviðinu!

Skráning í mótið hefst 5. janúar 2024 kl. 18:00.