Rafíþróttir: Kvennalið Þórs fer í undankeppni HM

Kvennalið rafíþróttadeildar Þórs í Counterstrike-tölvuleiknum sigraði lið Hattar í gær og er á leið í undankeppni Heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn í fyrstu tilraun.
 
Þórsliðið vann glæsilegan 2-0 sigur á Hetti í umspili um keppnisréttinn á Heimsmeistaramótinu í CS2.  Sagt er frá viðureign Þórs og Hattar í stuttu máli á Facebook-síðu rafíþróttadeildar Þórs: 
 
„Kvennalið Þórs í Counter Strike 2 vann stórglæsilegan 2-0 sigur á Hetti í umspili um keppnisrétt á Heimsmeistarmótinu í CS2. Í Dust 2 sigruðu þær 13-8 en það var Höttur sem valdi það map, Árveig Lilja (Nutella.com) var með 30 fellur og þar af 2 ása. Í Anubis lentu þær undir 3-8 og þurftu virkilega að ná að vinna 12. lotu sem þær gerðu og staðan í hálfleik 4-8, þá fór mulningsvélin í gang og lönduðu þær 13-11 sigri, þar sem Eneka (Knifeka) var með 22 fellur. Það er því staðfest að kvennalið Þórs er á leið í undankeppni Heimsmeistarmótsins í fyrsta sinn í fyrstu tilraun!“
 
Viðureigninni var streymt á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands - sjá hér