Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Stjórn Þórs/KA hefur komist að samkomulagi við þýska knattspyrnufélagið 1. FC Köln, sem leikur í Bundesligunni, efstu deild þar í landi, um félagaskipti Söndru Maríu Jessen til þýska liðsins.
Sandra María hefur því spilað sinn síðasta leik fyrir Þór/KA í bili og færir félagið henni hér með bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag til liðsins, félagsins og knattspyrnunnar á Akureyri.
Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaðurs stjórnar Þórs/KA, segir stjórn félagsins afar þakkláta fyrir framlag Söndru Maríu og fjölskyldu hennar til félagsins.
„Sandra María hefur verið lykilleikmaður Þórs/KA í gegnum árin og hefur framlag hennar verið ómetanlegt, bæði innan vallar og utan. Hún hefur verið fyrirmynd fyrir liðsfélaga og yngri leikmenn félagsins með fagmennsku, baráttuvilja og leiðtogahæfileikum og stjórn Þórs/KA er afar þakklát fyrir hennar framlag og fjölskyldu hennar,“ segir Dóra Sif og heldur áfram: „Á sama tíma og við munum sakna hennar þá er þetta jafnframt hvatning fyrir liðið okkar sem heldur áfram hér heima og sannar að með vinnusemi, hjarta og trú á sjálfan sig er allt hægt. Draumar rætast og baráttan á Akureyri með Þór/KA getur leitt leikmenn alla leið á stóra sviðið.“
Samningur Söndru Maríu við Þór/KA gilti til 16. nóvember í ár, en þar sem keppnistímabilið í Þýskalandi hefst strax í byrjun september, fyrsti leikur Kölnarliðsins er heimaleikur gegn RB Leipzig, og félagaskiptaglugginn aðeins opinn til og með 31. ágúst sóttist þýska félagið eftir því að fá hana strax í sínar raðir. Að öðrum kosti hefði Sandra María ekki fengið leikheimild fyrr en eftir áramót og misst af fyrstu 14 umferðum Bundesligunnar, auk bikarleikja.
Viðræður milli félaganna gengu vel fyrir sig. Sandra María hélt utan til Kölnar á miðvikudag til að skoða aðstæður, ljúka viðræðum og gangast undir læknisskoðun og aðrar athuganir áður en samningar og félagaskipti yrðu endanlega staðfest.
Þau mál gengu öll eins og í sögu og hefur hún nú undirritað atvinnumannasamning við þýska félagið.
Ítarlega er fjallað um félagaskiptin á vef Þór/KA sem má skoða með því að smella hér.