Selfoss fór með þrjú stig heim á laugardag

Mynd: Egill
Mynd: Egill

Eftirarfarandi frétt er fengið að láni frá www.thorka.is en þar ritaði Haraldur Ingólfsson sl. laugardag um leik Þórs/KA og Selfyssinga:

Selfyssingar fóru heim í dag (laugardag) með öll þrjú stigin úr jafnri viðureign við Þór/KA í Bestu deildinni þar sem úrslitin réðust á vafasömum vítaspyrnudómi.

Þegar á heildina er litið má kannski rökstyðja að leikurinn hafi verið bragðdaufur fyrir áhorfendur. Kannski var hann meira eins og skák þar sem þjálfarar liðanna reyndu að stýra sínum mönnum, vera ofan á í taktíkinni og berjast um stöður á vellinum, en þegar upp var staðið var ekki mikið um færi sem hefðu átt eða gátu gefið mörk.

Þór/KA átti að mörgu leyti ágætan leik, sem því miður fór fyrir lítið með vítaspyrnudómi sem var í besta falli vafasamur. Liðið náði oft að koma gestunum í vanda með því að pressa framarlega, náði að miklu leyti að koma í veg fyrir að gestirnir næðu að spila sinn leik. En hins vegar vantaði að skapa betri færi þó stundum hafi ekki vantað mikið upp á. Herslumunurinn var ekki með okkar stelpum í dag.

Markalaust jafntefli hefði verið réttlátt

Réttlát niðurstaða hefði sennilega verið markalaust jafntefli enda skapaði hvorugt liðið sér opin færi, en komust bæði í álitlegar stöður sem ekki skiluðu árangri þegar upp var staðið. Harpa í markinu bjargaði þó einu sinni frábærlega þegar Selfyssingar komust í færi.

Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir. Arna Eiríksdóttir varð þá á undan sóknarmanni Selfoss í boltann, potaði honum áfram. Nánast enginn á vellinum eða í stúkunni átti von á né bað um vítaspyrnu, markspyrna líklegast réttur dómur, mögulega hornspyrna. En dómari leiksins benti á vítapunktinn.

Sú sem féll og fékk vítið, Brenna Lovera, skoraði úr vítinu - sem Harpa var þó ekki langt frá því að verja - og reyndist það þegar upp var staðið eina mark leiksins. Virkilega sár niðurstaða fyrir leikmenn og þjálfara Þórs/KA að þurfa að sjá á eftir öllum stigunum vegna svona atviks.

Vafasöm ákvörðun, en einbeitingin á næsta leik

Þjálfarar liðsins voru sammála eftir leik að niðurstaðan hafi verið ósanngjörn og ákvörðun dómara um vítaspyrnu í besta falli vafasöm. Engu að síður ýmislegt sem liðið tekur með sér úr leiknum þó þessari niðurstöðu verði ekki breytt. Einbeitingin er strax komin á næsta leik enda spilað þétt allan maímánuð og næsti leikur strax á miðvikudag, gegn Þrótti syðra.

„Heilt yfir fannst mér þetta jafn leikur og mér fannst allt stefna í jafntefli. Mér finnst dómarinn taka þetta af okkur með röngum dómi en það er víst hluti af þessu að þeir gera sín mistök eins og við hin. Það er bara áfram gakk og láta okkur hlakka til næsta leiks,“ sagði Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara liðsins.

Hinn aðalþjálfari Þórs/KA, Perry Mclachlan, tekur í sama streng: „Erfitt að taka tapi eins og þessu sem er þegar öllu er á botninn hvolft ekki í okkar höndum. Mér fannst við halda þeim og ógnunum þeirra vel í skefjum. Stelpurnar héldu sig mjög vel við leikplanið varnarlega og það er synd að það sé tekið frá þeim með vafasamri ákvörðun. En svona er fótboltinn, við getum ekki dvalið við þetta, það er alltaf næsti leikur og núna einbeitum við okkur að honum,“ sagði Perry í samtali við heimasíðuritara.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Besta deildin - staða, úrslit, leikjadagskrá - á vef KSÍ.

Næsti leikur Þórs/KA er gegn Þrótti á útivelli miðvikudaginn 18. maí kl. 17:30.