Sex marka tap syðra

Eftir jafnan fyrri hálfleik lutu Þórsarar í lægra haldi fyrir ungmennaliði Vals í dag, 30-24. 

Leikurinn var sá fyrsti sem nýju þjálfararnir, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, stjórna eftir að þeir tóku við starfinu. Halldór Örn Tryggvason stýrði síðasta heimaleik, ásamt þeim, en nú eru þeir alfarið teknir við starfinu.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og liðin skiptust á að ná eins til tveggja marka forystu. Valsmenn höfðu eins marks forystu eftir fyrri hálfleikinn, 14-13. Valsmenn sigu síðan hægt og bítandi fram úr í seinni hálfleiknum, munurinn orðinn fimm mörk, 21-16, þegar hann var hálfnaður. Þórsurum tókst ekki að vinna upp þetta forskot, náðu því niður í fjögur mörk um tíma, en lokatölur urðu 30-24.

Mörk og markvarsla

Þór
Mörk: Kostadin Petrov 8, Jóhann Geir Sævarsson 8, Josip Vekic 4, Jonn RÞói Tórfinsson2, Jón Ólafur Þorsteinisson 1, Halldór Yngvi Jónsson 1.
Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 15 (33,3%).

Valur
Mörk: Ísak Logi Einarsson 10, Breki Hrafn Valdimarsson 7, Áki Hlynur Andrason 4, Tómas Sigurðsson 2, Loftur Ásmundsson 2, Knútur Gauti Kruger 2, Andri Finnsson 1, Hlynur Freyr Geirmundsson 1, Erlendur Guðmundsson 1.
Varin skot: Stefán Pétursson 17 (41,5%)

Þórsarar eiga einn leik eftir fyrir jól og það er einnig útileikur, gegn Fjölni í Grafarvoginum föstudaginn 16. desember kl. 18. Eftir þann leik tekur við rúmlega mánaðar frí, en fyrsti leikur á nýju ári verður heimaleikur gegn Kórdrengjum föstudaginn 20. janúar.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Valsmenn virðast vera með sterkasta ungmennaliðið og sitja þeir núna í 2. sæti Grill 66 deildarinnar. Þórsarar hafa lokið tíu leikjum, eru með níu stig og í fjórða sætinu. Fjölnir á tvo leiki til góða, en þeir eru einu stigi á eftir Þór. Fjölnismenn mæta ungmennaliði Hauka á þriðjudag áður en þeir fá svo Þórsara í heimsókn á föstudaginn.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Tölfræðin og gangur leiksins á Hbstatz.is.