Sex Þórsarar á Íslandsmóti í 501

Íslandsmótið í einmenningi í 501 í pílukasti fer fram á Bullseye við Snorrabraut í Reykjavík í dag og þar á píludeild Þórs sex fulltrúa. Keppni hefst kl. 11.

Fulltrúar Þórs eru: Edgars Kede Kedza, sem nýlega vann meistaramót Þórs í 501, Óskar Jónasson, Sigurður Brynjar Þórisson, Snæbjörn Þorbjörnsson, Valþór Atli Birgisson og Steinþór Már Auðunsson. Engin kona úr okkar röðum tekur þátt í mótinu að þessu sinni. Áhugavert að sá síðastnefndi er markvörður grannaliðs okkar í fótboltanum, spilaði leik í Bestu deildinni í gær og keppir fyrir hönd Þórs á Íslandsmótinu í dag.

Áætlað er að keppni í riðlum í karlaflokki ljúki um kl. 14:30, en þá tekur við útsláttarkeppni. Spilað er í 16 riðlum í karlaflokki og fara tveir efstu áfram úr hverjum riðli í útsláttarkeppni. Alls eru yfir 90 keppendur skráðir til leiks, 77 karlar og 15 konur.

Hér má sjá skiptingu í riðla: Riðlar í Íslandsmótinu í Pílukasti 2023 - ÍPS - Dart.is
Hér má sjá dagskrá og fyrirkomulag mótsins: Íslandsmótið í pílukasti 2023 - Dagskrá og fyrirkomulag[:] - ÍPS - Dart.is

Beinar útsendingar verða frá þremur viðureignum samtímis - sjá hér