Sigur í Eyjum og Þór/KA með sex stig

Myndin er tekin á æfingu liðsins á Hvolsvelli á laugardagskvöld.
Myndin er tekin á æfingu liðsins á Hvolsvelli á laugardagskvöld.

Þór/KA mætti ÍBV á Hásteinsvelli í Bestu deildinni í gær og hafði sigur, 1-0. Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins.

Með sigrinum fer Þór/KA upp í sex stig og þar með upp að hlið Þróttar og Vals, sem eiga reyndar eftir að spila í þriðju umferðinni. Þór/KA hefur nú unnið tvo erfiða útileiki, báða 1-0, fyrst gegn Stjörnunni og nú gegn ÍBV, en því miður töpuðust þrjú stig þegar Keflvíkingar komu norður.

Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins í gær eftir góðan undirbúning frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Sandra María fékk þá sendingu inn á teiginn vinstra megin frá Huldu Ósk og afgreiddi boltann faglega í fjærhornið. Þór/KA skapaði sér fleiri færi og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk, en tókst ekki. Til tíðinda dró seint í fyrri hálfleiknum þegar leikmaður ÍBV fékk rautt spjald fyrir olnbogaskot í andlit Söndru Maríu. Þrátt fyrir að vera einum fleiri tókst Þór/KA ekki að bæta við mörkum - en heimakonum tókst það ekki heldur og niðurstaðan því eins marks sigur og þrjú stig með heim. Sandra María hefur nú skorað í öllum þremur leikjum liðsins það sem af er móti.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Besta deildin á vef KSÍ.

Nánar er fjallað um leikinn í frétt á thorka.is og svo með fróðleiksmolum í máli og myndum einnig á thorka.is.