Tap gegn Aftureldingu á lokamínútunni

Skjáskot úr streymi á YouTube-rás Lengjudeildarinnar. Hér má sjá leikmenn hópast að dómaranum eftir …
Skjáskot úr streymi á YouTube-rás Lengjudeildarinnar. Hér má sjá leikmenn hópast að dómaranum eftir að hann hafði dæmt víti, sem síðan breyttist í markspyrnu, og tvo leikmenn sem biðla til aðstoðardómarans.

 

Þórsarar geta nagað sig í handarbökin eftir eins marks ósigur á móti Aftureldingu í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Mark á 89. mínútu réði úrslitum, en Þórsarar voru nálægt því að skora áður.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, heimamenn eitthvað meira með boltann, en fátt um færi. Seinni hálfleikurinn var líflegri og munaði minnstu að Aroni Inga Magnússyni tækist að skora eftir glæsilega rispu vinstra megin í teignum hjá heimamönnum. Skot Arons Inga fór í stöngina. Undarlegt atvik átti sér stað á 83. mínútu þegar Ingimar Arnar Kristjánsson féll í teignum eftir stungusendingu frá Aroni Inga. Dómari leiksins flautaði og benti á vítapunktinn, udnir miklum mótmælum heimamanna. Boltinn var kominn á punktinn og menn tilbúnir að fara í vítið, en þá var ákvörðunin um víti afturkölluð og úr varð markspyrna sem Afturelding átti. 

Um fimm mínútum síðar, eða á 89. mínútu, kom svo blaut tuska í andlit Þórsara þegar Gunnar Bergmann Sigmarsson skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu. Það reyndist eina mark leiksins og Afturelding tók öll þrjú stigin sem í boði voru. Jafntefli hefði verið sanngjarnara og jafnvel ekki fjarri lagi að halda því fram að Þórsarar hefðu átt stigin þrjú skilið, en hefðu þá þurft að skora, sem þeim tókst ekki.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Upptaka af leiknum á YouTube-rás Lengjudeildarinnar:

Næstu verkefni Þórsliðsins eru tveir leikir á móti sama liðinu. Fyrst er það bikarleikur í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins þegar Leiknismenn úr Reykjavík mæta á Þórsvöllinn þriðjudaginn 16. maí og hefst sá leikur kl. 18. Leiknismenn verða svo rétt nýkomnir heim þegar þeir þurfa að halda aftur norður því liðin mætast í þriðju umferð Lengjudeildarinnar á Þórsvellinum laugardaginn 20. maí kl. 15.