Tap hjá KA/Þór gegn Selfossi

KA/Þór er áfram í fimmta sæti Olísdeildar kvenna þrátt fyrir tap gegn næstneðsta liði deildarinnar í dag.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn, en KA/Þór náði þriggja marka forystu eftir fyrsta stundarfjórðunginn. Staðan í leikhléi var 12-11. Selfyssingar náðu hins vegar forystunni snemma í seinni hálfleik, voru komnar með fjögurra marka forystu þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. KA/Þór tókst ekki að brúa þetta bil, en náðu þó að minnka muninn í tvö mörk þegar um fjórar mínútur voru eftir. Selfyssingar hleyptu þeim ekki nær, lokatölurnar 21-26, og svekkjandi fimm marka tap gegn næstneðsta liði deildarinnar staðreynd. Ida Hoberg, sem nefbrotnaði fyrir skömmu, var með í leiknum og skoraði þrjú mörk, en hún fékk sína þriðju brottvísun á 51. mínútu og þar með útilokun frá leiknum. Staðan var þá 18-21.

Mörk/varin skot/refsingar

KA/Þór
Mörk: Rut Jónsdóttir 6, Nathalia Soares 4, Júlía Björnsdóttir 3, Ida Hoberg 3, Lydia Gunnþórsdóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir, 1, Aþena Einvarðsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 18 (40,9%).
Refsingar: 14 mínútur

Selfoss
Mörk: Anna Kristín Einarsdóttir 7, Rakel Guðjónsdóttir 5, Katla María Magnúsdóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Tinna Soffía Traustadóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Katla Björg Ómarsdóttir, 2, Kristín Una Hómarsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 19 (47,5%).
Refsingar: 4 mínútur.

KA/Þór er þó áfram í 5. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 17 leiki. Haukar hafa einnig 12 stig, en hafa leikið einum leik meira. Selfoss er áfram í næstneðsta sætinu, nú með átta stig.

Tölfræði leiksins á Hbstatz.
Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef HSÍ (ekki búið að færa inn leik dagsins þegar þetta er birt).

Næsti leikur KA/Þórs verður gegn HK, sem er í neðsta sæti deildarinnar, í Kórnum laugardaginn 11. mars kl. 18. Þrír síðustu leikir liðsins í deildinni verða síðan gegn liðum í efri hlutanum, en þær mæta ÍBV á útivelli 22. mars, Fram á heimavelli 25. mars og Val á útivelli í lokaumferðinni 1. apríl.