Tap og forföll lykilmanna hjá KA/Þór

KA/Þór tapaði með tveggja marka mun fyrir toppliði Vals í Olísdeildinni í handbolta í gær. Liðið er áfram í 5. sæti deildarinnar, sem er orðin nokkuð tvískipt.

Þrátt fyrir forföll lykilmanna í liði KA/Þórs munaði ekki nema tveimur mörkum þegar upp var staðið í viðureign liðsins við topplið Vals syðra, en lokatölur urðu 28-26 fyrir Val. Fjögurra marka munur var eftir fyrri hálfleikinn. Fram kemur í frétt á akureyri.net að Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir verði líklega ekki meira með fyrir áramót, Rut vegna fingurbrots og Unnur vegna heilahristings sem hún hlaut á æfingu í október.

Lydía Gunnþórsdóttir var markahæst hjá KA/Þór með átta mörk, Nathalia Soares Baliana skoraði sjö, Hildur Lilja Jónsdóttir sex, Aþena Sif Einvarðsdóttir skoraði tvö mörk og þær Anna Þyrí Halldórsdóttir, Júlía Sóley Björnsdóttir, Telma Lísa Elmarsdóttir eitt mark hver. Matea Lonac varði sjö skot. Frammistaða Lydiu hefur vakið athygli, en hún er kornung og spilar í stöðu leikstjórnanda. Lydía hefur ásamt fleiri ungum og efnilegum leikmönnum stigið upp og þurft að taka á sig stærra hlutverk og meiri ábyrgð eftir að liðið missti lykilmenn frá síðasta tímabili. 

KA/Þór er í fimmta sæti deildarinnar eftir sjö umferðir, en deildin virðist vera að tvískiptast með Val, Stjörnuna, ÍBV og Fram í efri hlutanum og KA/Þór, Hauka, Selfoss og HK í neðri hlutanum. KA/Þór hefur unnið tvo leiki en tapað fimm.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Ítarleg tölfræði úr leiknum á hbstatz.is.

Staðan í deildinni: