Þór í efstu deild í körfubolta!

Gríðarlegur fögnuður braust út hjá Þórsliðinu og öflugri stuðningssveit þegar leiknum lauk og sæti í…
Gríðarlegur fögnuður braust út hjá Þórsliðinu og öflugri stuðningssveit þegar leiknum lauk og sæti í efstu deild á næstu tímabili var tryggt. Myndir: HarIngo

Þórsstelpurnar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitarimmu 1. deildar kvenna og þar með einnig sæti í Subway-deildinni á næsta tímabili með sigri á Snæfelli í framlengdum leik.

Eftir að liðin höfðu skipst á forystu og átt kröftug áhlaup í leiknum var það Snæfell sem hafði þriggja stiga forystu þegar örsutt var eftir. Þórsarar fengu þrjár tilraunir til að hitta þriggja stiga skoti, fyrri tvö geiguðu, en grimmdin og viljinn skilaði því að fráköstin voru okkar og það var síðan Eva Wium Elíasdóttir sem jafnaði leikinn með flautukörfu í 81-81 og því þurfti að framlengja. Í framlenginunni voru okkar stelpur einfaldlega sterkari, ákveðnari og létu ekkert stöðva sig í baráttu fyrir sigrinum. Þær unnu framlenginuna með 10 stiga mun og úrslit leiksins 100-90 Þór í vil.

Þegar úrslitarimman hófst voru forsendurnar aðrar en þegar þessum undanúrslitarimmum lauk í kvöld. Fyrirfram fóru liðin inn í mótið og úrslitakeppnina vitandi að aðeins eitt lið myndi falla úr Subway deildinni og eitt fara upp úr 1. deild. En með reglugerðarbreytingu á þingi KKÍ á dögunum breyttust forsendurnar, ákveðið var að fjölga liðum í efstu deild - í miðri úrslitakeppni, vel að merkja - og ljóst að þau lið sem myndu vinna einvígin í undanúrslitum fengju bæði sæti í efstu deild. 

Það er því ljóst að Þór mun eiga lið í efstu deild kvenna í körfubolta á næsta ári, í fyrsta skipti frá því tímabilið 1977-1978, eða í 45 ár. Áratuginn á undan hafði Þórsliðið reyndar unnið bæði Íslands- og bikarmeistaratitla. 

Nánar verður fjallað um leikinn hér á heimasíðunni síðar í kvöld (eða í nótt), með myndböndum, viðtölum og nánari tölfræði úr leiknum, auk smá fróðleiks úr fortíðinni.


Fjölmenni lagði leið sína í Hólminn í kvöld til að styðja stelpurnar. Hér er stuðningssveitin klár fyrir leikinn.

Lúðrar og trommur og frábærir stuðningsmenn hjá báðum liðum gerðu leikinn í kvöld að stórkostlegri skemmtun.

Það
Það er erfitt að lýsa því hvernig það er að mæta í Hólminn til að skrifa um körfuboltaleik og upplifa þá stemningu sem okkar fólk smitaði inn í liðið, sem sannarlega átti þátt í sigrinum.


Stelpurnar og stuðningsfólkið fögnuðu vel saman í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi að leik loknum.