Þór tekur á móti Hamri

Þór tekur á móti Hamri

Á morgun, föstudag tekur Þór á móti Hamri og er leikurinn liður í 5. umferð 1. deildar karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í íþróttahöllinni og hefst klukkan 19:15.

Þegar liðin mætast situr Hamar í 5. sæti deildarinnar með 4 stig en Þór situr eitt á botni deildarinnar án stiga.

Hamar hóf tímabilið á útisigri gegn Hrunamönnum en töpuðu svo heimaleik gegn Álftanesi og í þriðju umferð tap gegn ÍA á Akranesi. Í síðustu umferð hafði Hamar betur gegn Sindra í leik sem fram fór í Hveragerði.

Eins og áður segir er Þór enn án stiga og liðið leitar að fyrsta sigri vetrarins. Í fyrstu umferð tapaði liðið gegn Álftanesi í leik sem fram fór syðra og í kjölfarið kom afar svekkjandi tap gegn ÍA í höllinni. Í 3. umferð kom svo slæmt tap gegn Sindra í leik sem fram fór í Ice lagoon höllinni og í síðustu umferð kom svo tap gegn Skallagrími í Borgarnesi.

En síðasti leikur Þórs var bikarleikur gegn bikarmeisturum Stjörnunnar og höfðu meistararnir öruggan sigur. Þrátt fyrir tapið spiluðu strákarnir okkar mjög vel á köflum og vonandi ná þeir að sýna sömu baráttu og áræðni og þeir sýndi þá, þegar þeir taka á móti gestunum úr Hveragerði.

Eins og venja er til verða seldir grillaðir hamborgarar fyrir leik, borgari og drykkur á 1.500 krónur.

Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á ÞórTV. Útsendinguna má nálgast með því að smella á þessa slóð https://page.inplayer.com/ThorSportsclub/item.html?id=3446229

Hvetjum við stuðningsmenn til að fjölmenna á leikinn og styðja Þór til sigurs. Strákarnir okkar þurfa á öllum þeim stuðningi að halda sem í boði er. Stuðningur áhorfenda skiptir miklu máli og getur hreinlega skipt sköpum, áhorfendur eru jú Sjötti maðurinn.

Fólk er hvatt til þess að kynna sér þá kosti sem fylgja því að vera meðlimur í Sjötta manninum stuðningsmannaklúbb deildarinnar. Um klúbbinn og skráningu má finna á eftirfarandi slóð https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort

Körfubolti er skemmtileg íþrótt – allir á völlinn.

Áfram Þór alltaf, alls staðar