Þór tekur á móti Hamri/Þór

Þór tekur á móti Hamri/Þór

Á sama tíma og Þórsstúlkur taka á móti Hamri-Þór sækja strákarnir okkar lið Sindra frá Höfn í Hornafirði heim.

Á morgun, föstudag tekur Þór á móti sameiginlegu liði Hamars og Þórs úr Þorlákshöfn og er leikurinn liður í 4. umferð fyrstu deildar kvenna í körfubolta. Leikurinn fer fram í íþróttahöllinni og hefst klukkan 19:15.

Eftir fyrstu þrjár umferðirnar hafa gestirnir unnið einn leik í deildinni, gegn b liði Breiðabliks en tapleikirnir eru tveir, gegn KR og Stjörnunni.

Okkar stelpur unnu tvo fyrstu leikina í deildinni gegn Ármanni og Tindastóli þá kom tapleikur gegn Snæfelli í leik sem fram fór í Hólminum.

Þegar þessi lið mættust í íþróttahöllinni í mars síðastliðnum höfðu stelpurnar okkar betur 78:76 í æsispenandi leik þar sem úrslitin réðust á flautukörfu og var þar að verki fyrirliðinn Heiða Hlín. Ómögulegt er að segja til um hvar okkar lið stendur gagnvart gestunum en samkvæmt sá verður sjötta sætið þeirra hlutskipti en fjórða sætið verður Þórs.

Í liði gestanna hefur Jenna Christina Mastellone verið þeirra öflugust en hún er með 19 stig að meðaltali í leik. Næst henni kemur Emma Hrönn Hákonardóttir með 12 stig þá koma þær Margrét Lilja Thorsteinson og Gígja Marín Þorsteinsdóttir með 8 stig hvor.

Hjá Þór hefur mest borið á Maddie sem er með 14,3 stig og 18,7 fráköst. Heiða Hlín með 13,7 stig og þær Emma Karólína og Hrefna Ottósdóttir með 12,3 hvor.

Ef að líkum lætur þá má við búast við jöfnum og skemmtilegum leik, skemmtun sem engin ætti að láta framhjá sér fara. Því ætti allt áhugafólk um körfuknattleik að fjölmenna á leikinn.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 og miðaverð á leikinn er 2.000 krónur og frítt fyrir 16 ára og yngri.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á Þór TV.

Við hvetjum fólk til þess að kynna sér þá kosti sem fylgir því að vera meðlimur í Sjötta manninum stuðningsmannaklúbb deildarinnar. Um klúbbinn og skráningu má finna á eftirfarandi slóð https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort

Ice Lagoon höllin, Höfn í Hornafirði: Sindri-Þór

Á sama tíma og stelpurnar okkar taka á móti Hamri-Þór sækja strákarnir okkar lið Sindra heim og fer sá leikir fram á Höfn í Hornafirði.

Ólíkt Þór sem tapaði fyrstu tveimur leikjunum mæta leikmenn Sindra taplausir til leiksins. Sindri hóf leiktíðina á fimm stiga sigri á ÍA og í annarri umferð lögðu þeir Skallagrím að velli með fimm stigum. Báðir leikirnir voru útileikir hjá Sindra.

Eins og kunnugt leita strákarnir okkar að sýnum fyrsta sigri. Í upphafsleiknum varð liðið að sætta sig við naumt tap á útivelli gegn Álftanesi síðan tapaði Þór heimaleik gegn ÍA leik sem liðið glutraði niður góðu forskoti og Skagamenn unnu þriggja stiga sigur.

Vonandi ná strákarnir okkar að sýna sitt rétta andlit og koma heim með tvö stig í farteskinu.

Leikur Sindra og Þórs fer fram í Ice Lagoon höllinni og hefst klukkan 19:15

Áfram Þór alltaf, alls staðar