Þór/KA fór á topp Bestu deildarinnar

Frábær frammistaða skilaði Þór/KA sigri á Breiðabliki í fjórðu umferð Bestu deildarinnar í gær.

Þór/KA og Breiðablik voru jöfn að stigum fyrir leikinn, bæði með tvo sigra og eitt tap í fyrstu þremur umferðunum. Stelpurnar okkar mættu vel gíraðar í leikinn, vörðust frábærlega frá fremsta til aftasta leikmanns, spiluðu vel sín á milli þegar þær höfðu boltann og voru stórhættulegar í skyndisóknum. Sannast sagna hefði sigurinn getað orðið stærri því Þór/KA fékk fleiri og opnari færi en gestirnir.

Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði fyrra mark Þórs/KA í gær eftir frábæran undirbúning alveg frá aukaspyrnu Jakobínu Hjörvarsdóttur á egin vallarhelmingi, hælsendingu frá Ísfold Marý Sigtryggsdóttur á Söndru Maríu Jessen og frábæra sendingu hennar yfir til hægri á Huldu Ósk Jónsdóttur sem þrumaði boltanum framhjá markverði Blika, 1-0 eftir 27. mínútna leik.

Þegar leið að lokum leiks þyngdist sókn gestanna, en þétt vörn Þórs/KA lokaði vel á allar aðgerðir Blika. Sandra María Jessen innsiglað sigurinn efitr skyndisókn í viðbótartíma leiksins. Þór/KA vann þá boltann í vörninni, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir fór upp miðjuna og átti stungusendingu inn á Söndru Maríu sem skoraði af öryggi, 2-0 á 90+3.

Eftir sigurinn í gær er Þór/KA í toppsæti deildarinnar með níu stig úr fjórum leikjum. Valur er með sjö stig og gæti mögulega náð efsta sætinu með sigri á Stjörnunni í kvöld.

Leikskýrslan á ksi.is
Mótið á ksi.is.

Nánar er fjallað um leikinn á thorka.is.