Þór/KA lagði Þrótt

Markaskorarnir Andrea Mist (t.v) og Margrét
Markaskorarnir Andrea Mist (t.v) og Margrét

Þór/KA mætti Reykjavíkurmeisturum Þróttar í þriðja leik sínum í riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins í Boganum í gær (laugardag). Baráttan um sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins er jöfn og spennandi og því skiptir hvert stig máli. Glögglega mátti sjá á leikmönnum Þórs/KA að stelpurnar vildu bæta fyrir slakan leik gegn Aftureldingu síðastliðinn sunnudag.

„Spiluðum ekki nægilega vel í síðasta leik,“ sagði Harpa Jóhannsdóttir í samtali við heimasíðuna thorka.is, „og vorum því staðráðnar í því að gera betur í dag. Mér fannst viljinn og samheldnin skína í gegn í dag og við uppskárum þrjú stig. Gott veganesti fyrir framhaldið!“

Þór/KA tók forystuna á 9. mínútu með marki sem skráð var sem sjálfsmark markvarðar Þróttar, en Margrét Árnadóttir kom þar aðvífandi til að hirða frákast eftir sláarskot frá Sögu Líf Sigurðardóttur. Katla Tryggvadóttir jafnaði fyrir þrótt á 41. mínútu, en Andrea Mist Pálsdóttir skoraði einkar fallegt mark á 71. mínútu, 2-1, sem urðu lokatölur leiksins.

Góð stemning var í Boganum og náðu öflugar stelpur í stuðningsliði gestanna að yfirgnæfa heimafólk á löngum köflum í leiknum, en þar voru væntanlega á ferð stelpur í 5. flokki sem taka þátt í Goðamóti Þórs núna um helgina.

Nánar á thorka.is.

Smellið hér til að sjá myndband af marki Andreu Mistar.

Leikskýrslan á ksi.is.