Þór/KA mætir Stjörnunni á Þórsvellinum í dag

Tíunda umferð Bestu deildarinnar hefst í dag með viðureign Þórs/KA og Stjörnunnar á Þórsvellinum. Leikurinn hefst kl. 16.

Með leikjum dagsins hefst seinni hluti hinnar hefðbundnu deildarkeppni þar sem liðin tíu í Bestu deildinni spila tvöfalda umferð. „Gamla mótið“ er hálfnað, en eins og flestum sem fylgjast með fótbolta er væntanlega kunnugt bætist við úrslitakeppni að loknum umferðunum 18. Með sigrinum á Tindastóli á þriðjudagskvöldið lauk fyrri hluta deildarkeppninnar, búið að spila einu sinni við öll liðin og nú byrjar hringurinn aftur.

Fyrir leikinn í dag er Þór/KA í 4. sæti deildarinnar með 15 stig.

Stjarnan hefur mun oftar unnið

Viðureign liðanna í dag verður sú 38. á milli þessara liða í efstu deild Íslandsmótsins. Þau mættust í efstu deild árið 2000 og síðan á hverju ári frá og með 2006. Stjarnan hefur mun oftar haft betur í gegnum árin. Þór/KA hefur unnið tíu leiki af þessum 37 viðureignum liðanna í efstu deild, sex sinnum hefur endað með jafntefli, en Stjarnan hefur unnið 21 leik. Stjarnan vann báða leiki liðanna í Bestu deildinni í fyrrasumar með miklum mun, 5-0 í Garðabænum og 4-0 á Akureyri. En Þór/KA hóf Íslandsmótið í ár með sigri gegn Stjörnunni í Garðabænum í lok apríl þar sem Sandra María Jessen skoraði eina markið. Þessi lið höfðu fyrr í aprílmánuði mæst í úrslitaleik Lengjubikarsins þar sem Stjarnan hafði betur í vítaspyrnukeppni.