Þór/KA með langþráðan sigur í Laugardalnum

Hulda Ósk Jónsdóttir lék sinn 150. leik í efstu deild þegar Þór/KA mætti Þrótti í Laugardalnum í gær…
Hulda Ósk Jónsdóttir lék sinn 150. leik í efstu deild þegar Þór/KA mætti Þrótti í Laugardalnum í gær. Mynd: Þórir Tryggva.
- - -

Þór/KA situr áfram í 5. sæti Bestu deildarinnar eftir sigur á Þrótti í þriðja leik liðsins í efri hluta deildarinnar í gær.

Enn er barist um 2. sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári. Fjögur lið eiga enn möguleika á að ná 2. sætinu og er Þór/KA þeirra á meðal. Enn eru tvær umferðir eftir og því sex stig í pottinum.

  • 0-1 - Sandra María Jessen (48’). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
  • 0-2 - Jakobína Hjörvarsdóttir (70’).

Þrátt fyrir mörg tækifæri og tilraunir tókst hvorugu liðinu að skora í fyrri hálfleik. Það leið þó ekki á löngu eftir að flautað var til leiks í seinni hálfleik þar til Sandra María Jessen skoraði. Þór/KA vann þá boltann á miðjum vellinum, Karen María Sigurgeirsdóttir var fljót að átta sig og sendi háan bolta yfir til vinstri þar sem Sandra María tók við honum og skoraði af vítateigslínu.

Jakobína Hjörvarsdóttir bætti við öðru marki á 70. mínútu þegar hún tók aukaspyrnu af um 40 metra færi. Boltinn lenti inni í teignum og skoppaði þaðan í stöng og inn, fram hjá leikmönnum beggja liða.

Tólf dagar í næsta leik, en næg verkefni

Nú er fram undan landsleikjahlé og næsti leikur Þórs/KA er ekki fyrr en laugardaginn 30. september þegar við fáum Stjörnuna í heimsókn.

Átta leikmenn úr okkar hópi verða í eldlínunni með landsliðum næstu daga. Sandra María Jessen verður með A-landsliðinu sem spilar tvo fyrstu leiki sína í nýrri Þjóðadeild. Hulda Björg Hannesdóttir var kölluð inn í U23 landsliðshópinn þegar hún var á heimleið eftir leikinn í gær og bætist þar í hópinn með Jakobínu Hjörvarsdóttur og Karen Maríu Sigurgeirsdóttur. Liðið fer til Rabat í Marokkó og mætir þar landsliði Marokkó í tveimur æfingaleikjum. Fjórar úr okkar röðum fara með U19 landsliðinu til Noregs og mæta þar Noregi og Svíþjóð í æfingamóti, en það eru þær Amalía Árnadóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Steingerður Snorradóttir.

Auk þessara átta eru nokkrar í þessum landsliðshópum sem hafa leikið með Þór/KA, ýmist uppaldar hér eða hafa komið frá öðrum félögum og átt hér viðkomu.

Nánar á thorka.is: