Þórsarar mæta Aftureldingu á Framvellinum

Önnur umferð Lengjudieldarinnar er að hefjast, fyrsti útileikur Þórsara í tvennum skilningi og Mosfellingar heimsóttir í Úlfarsárdalinn. 

Þar sem endurbætur standa yfir á vellinum á Varmá getur Afturelding ekki spilað heimaleiki sína þar um þesar mundir. Þeir spila því heimaleik sinn gegn Þór í kvöld á Framvellinum. Vegna þessarar tilfærslu á völlum breytist leiktíminn einnig og hefst leikurinn kl. 19:30. Enn og aftur skal á það minnt að mæting á völlinn, öflugur stuðningur og jákvæður úr stúkunni, skiptir máli og skilar orku inn á völlinn. 

Miðasala fer fram í smáforritinu Stubbi og kostar almennur miði 2.000 krónur.

Þórsarar sigruðu lið Vestra í fyrstu umferðinni, 2-1, með mörkum frá Mark Rochester Sörensen og Bjarna Guðjóni Brynjólfssyni. Afturelding sigraði Selfoss 3-1 á útivelli í fyrstu umferðinni og mæta bæði lið því til leiks í dag með þrjú stig í pokanum - og markmið um að bæta þremur í þann poka. Fyrirliði Aftureldingar, Aron Elí Sævarsson, lék hluta sumars 2019 með Þór á lánssamningi frá Val.

Viðureignir Þórs og Aftureldingar í næstefstu deild eru samtals 12, fyrst 2003 og 2009, en síðan árlega frá og með 2019. Þórsarar hafa unnið tvo af hverjum þremur leikjum þegar þessi lið hafa mæst í næstefstu deild. Þór er með átta sigra, tvisvar hafa liðin skilið jöfn og tvisvar hefur Afturelding sigrað. 

Þegar liðin mættust 2009 fór sá leikur fram á Akureyrarvelli og var það kveðjuleikur Þórsara á vellinum. Leikurinn fór fram sömu helgi og Landsmót UMFÍ stóð yfir á nýendurbyggðum Þórsvellinum, síðan tóku við tveir útileikir og svo vígsluleikur vallarins þegar Þór sigraði KA 3-2. Tölurnar í kveðjuleiknum á Akureyrarvelli voru þær sömu, Þórsarar sigruðu þar 3-2. Meðal þeirra sem voru í Þórsliðinu í þeim leik voru Sveinn Elías Jónsson, nú nýkjörinn formaður knattspyrnudeildar Þórs, og Sveinn Leó Bogason, sem þarna var varamarkvörður en er núna aðstoðarþjálfari Þórsliðsins.

Fyrir Þórsara sem ekki komast á völlinn má benda á að mögulegt er að horfa frítt á leikinn á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.